Keyptur til að skora sigurstigin: Sigurkarfa á lokasekúndunum annan leikinn í röð

fsu_hottur_karfa_30102011_0038_web.jpgBandaríkjamaðurinn Michael Sloan tryggði Hetti sigur á lokasekúndunum annan leikinn í röð þegar liðið vann FSu í 1. deild karla í körfuknattleik 74-76 á Selfossi í gærkvöldi. Þess utan átti hann dapran leik. Hattarmenn áttu í miklum vandræðum með þriggja stiga skyttur Selfyssinga.

 

Heimamenn byrjuðu betur og skoruðu átta fyrstu stigin í leiknum. Hattarmenn rönkuðu við sér eftir leikhlé í stöðunni 12-7. Þeim gekk samt bölvanlega að stöðva Kjartan Atla Kjartansson, hinn spilandi þjálfara FSu, sem skoraði níu af ellefu seinustu stigum liðsins í fyrsta fjórðungi úr þriggja stiga skotum og tryggði liðinu sínu fjögurra stiga forskot, 23-19.

Hattarmenn eltu áfram í öðrum leikhluta. Munurinn var aldrei mikill, 2-4 stig en FSu liðið skrefinu á undan. Hattarmönnum gekk illa að loka á þriggja stiga skyttur heimamanna sem skiluðu þeim 37-35 forustu í hálfleik.

Miðherjinn Trevon Bryant var hvíldur stóra hluta leikhlutans en hann skoraði yfir tíu stig í þeim fyrsta. Trevon er yfir tveir metrar á hæð en vantar snerpu og jafnvel ákefð til að hæfileikar hans nýtist til fulls. Þjálfararnir Viðar Örn Hafsteinsson og Frosti Sigurðarson reyndu að dreifa álaginu á liðinu til að það væri sem best í stakk búið fyrir síðari hálfleikinn.

fsu_hottur_karfa_30102011_0021_web.jpgAlltaf hitti Kjartan

Hann byrjaði vel. Michael Sloan hamaðist á sóknarmönnum Selfyssinga, stal boltanum tvisvar og Viðar Örn einu sinni. Þessi varnarvinna var grunnurinn að því að Höttur komst yfir í fyrsta sinn í leiknum, 39-42.

Þá fór allt í baklás. Kjartan Atli skoraði tvær þriggja stiga körfur og lærisveinar hans fylgdu fordæminu sem breytti stöðunni í 56-46. Engu virtist skipta þótt Kjartan Atli hefði lítið pláss til að athafna sig eða væri einum tveimur metrum utan við þriggja stiga línuna. Alltaf virtist honum takast að búa til pláss fyrir sig til að skjóta og fyrir Egilsstaðabúana hitti hann ergilega oft. Staðan skánaði samt með yfirvegaðri sóknarleik og bættri vörn þannig að munurinn var aðeins tvö stig, 64-62 eftir þriðja leikhluta.

Aðrir taka ábyrgðina

Michael gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi í fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu sem kom Hattarmönnum stigi yfir og á eftir fylgdu körfur frá Bjarka Oddssyni, Eysteini Bjarna Ævarssyni og loks þriggja stiga karfa Viðars sem kom Hetti í 64-72. Dreifingin á stigaskorinu í byrjun leikhlutans endurspeglaði leikinn hjá Hetti.

Gegn Hamri, leik sem Höttur vann á flautkörfu Michaels, virtist Bandaríkjamennirnir fyrst og fremst spila sín á milli. Í gærkvöldi voru allir með. Fyrir rest varð Bjarki stigahæstur með 16 stig.

Yngri leikmennirnir stigu líka upp. Eysteinn Bjarni spilaði frábæra vörn á Kjartan Atla undir lokin og eiginlega klippti hann út úr leiknum.  Eysteinn og jafnaldri hans, Andrés Kristleifsson, risu undir ábyrgðinni þegar þess þurfti.

fsu_hottur_karfa_30102011_0027_web.jpgBarið á Mike

Selfyssingar spiluðu allan tímann öfluga vörn gegn Michael Sloan, skiljanlega eftir að hann skoraði yfir 30 stig í fyrstu tveimur leikjunum. Tveir mættu honum framarlega og tóku hart á honum. Að auki hitti hann illa, var alls aðeins með 20% skotnýtingu og skoraði ekki nema níu stig. Svo hart var að honum sótt að tveimur og hálfri mínútu fyrir leikslok fór hann út af með skurð á augabrún.

Sem fyrr í leiknum stigu þá aðrir leikmenn upp í staðinn. Mike kom síðan aftur inn á með plástur á höfðinu enda átti hann eftir að reynast örlagavaldur leiksins. Orri Jónsson jafnaði fyrir FSu þegar 25 sekúndur voru eftir af leiknum með enn einu þriggja stiga skotinu. Hattarmenn tóku strax leikhlé og lögðu upp í kerfi, sem var í grófum dráttum þannig að Mike hélt boltanum þar til hann réðist að körfunni og skoraði þegar sex sekúndur voru eftir.

FSu tók þá leikhlé og stillti upp í þriggja stiga skot fyrir Bjarna Bjarnason en skot hans fór af hringnum og í hendurnar á varnarmanni Hattar.

fsu_hottur_karfa_30102011_0035_web.jpgBreyttir tímar hjá FSu

Reyndar mátti deila um tímann í lokinn. Stutt er síðan FSu liðið, sem byggt er upp í kringum körfuboltaakademíu í Fjölbrautaskóla Suðurlands, var uppi í úrvalsdeild. Það var þá byggt upp í kringum Brynjar Karl Sigurðsson, sem meðal annars lét hengja upp svört tjöld í salnum í Iðu. Tjöldin skapa vissulega enn ákveðna stemmingu en margt vantar upp á þá fagmennsku sem þá einkenndi liðið.

Kjartan Atli, tæplega þrítugur þjálfarinn, var elsti hausinn í liðinu. Þegar hann var inn á vantaði haus á bekkinn. Meðalaldurinn var heldur ekki hár á ritaraborðinu og tvisvar eða þrisvar var tímavarslan það hæpin að dómarar leiksins þurftu annað hvort að dæma ofan í vitlausa skotklukku eða láta laga tímann. Þannig var það í lokin. Leikhlé Hattar virtist tekið þegar 25 sekúndur voru eftir en klukkan stoppaði í 21 sekúndu. Eftir ráðstefnu við ritaraborðið birtist talan 00:23 á vallarklukkunni.

FSu liðið í ár er líka fremur lágvaxið. Þeir gera sér þannig grein fyrir styrk sínum og veikleikum. Í stað þess að mæta Trevor, sem varði tvö skot í fyrsta leikhluta, leituðu Selfyssingar að færum fyrir þriggja stiga skot. Leikstíll þeirra endurspeglast í þeirri staðreynd að þeir reyndu 45 þriggja stiga skot en aðeins 19 tveggja stiga. Kjartan Atli fór þar fremstur í flokki og skoraði úr 8 af 17 tilraunum þriggja stiga tilraunum sínum.

fsu_hottur_karfa_30102011_0072_web.jpgÍ lagi að vera lélegir ef við vinnum

„Við vissum að Kjartan gæti neglt boltanum niður þótt hann væri tveimur metrum utan við línuna. Ég var því ekkert sáttur við vörnina hjá okkur gegn skyttunum þeirra. Eina leiðin til að stöðva Kjartan í svona ham er að neita honum um boltann. Eysteinn fór og klippti hann út úr leiknum og vann þannig eiginlega leikinn fyrir okkur,“ sagði Viðar Örn í leikslok.

„Það er í lagi að vera lélegir ef við vinnum. Við vorum daprir varnarlega og þeir röðuðu á okkur þriggja stiga körfum. Þegar vörnin small svöruðum við með 8-15 stigum í röð. Sóknin er enn stirð en þar erum við að setja inn nýja hluti þannig við eigum að vera í góðum málum.“

Viðar Örn var ánægður með framlag Michaels í lokin. „Kaninn okkar var barinn í druslur en hann fór í gegnum þá í lokin og skoraði sigurstigin. Til þess er hann keyptur.“

Bjarki Oddsson var stigahæstur Hattarmanna með 16 stig, Trevon Bryant skoraði 15 og tók 12 fráköst og Eysteinn Bjarni og Andrés tíu stig hvor.

fsu_hottur_karfa_30102011_0002_web.jpgfsu_hottur_karfa_30102011_0005_web.jpgfsu_hottur_karfa_30102011_0018_web.jpgfsu_hottur_karfa_30102011_0033_web.jpgfsu_hottur_karfa_30102011_0043_web.jpgfsu_hottur_karfa_30102011_0052_web.jpgfsu_hottur_karfa_30102011_0070_web.jpgfsu_hottur_karfa_30102011_0015_web.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.