„Keppnisskapið var alltaf til staðar hjá mér“

„Ég er mjög stolt af því að geta sagt að ég komi frá Djúpavogi," segir Ásta Birna Magnúsdóttir, sem spilar golf í efstu deild í Þýskalandi með einum sterkasta klúbb landsins.


Ásta Birna var ekki gömul þegar hún sló sín fyrstu högg í golfinu.

„Þegar ég var átta eða níu ára gömul fór ég að fikta við golfið. Móðurbróðir minn tók mig með þegar hann var að fara með vinum sínum að spila. Fyrstu árin spilaði ég með gömlum kylfum frá honum. Ég fékk svo mitt fyrsta golfsett í afmælisgjöf þegar ég var tíu ára gömul og þá var ekki aftur snúið.“

Ásta Birna segir að á þessum árum hafi ekki verið algengt að fólk á Djúpavogi væri að spila golf. „Ég er því mjög ánægð að hafa fengið tækifæri að prófa íþróttina á þessum stað á þessum tíma. Foreldar mínir hvöttu mig áfram í öllu sem ég tók mér fyrir hendur, hvort sem það var skóli, sund, frjálsar íþróttir eða golf. Pabbi fór mikið með mig inn á Hamar, sem er í botni Hamarsfjarðar í 10 km fjarlægð frá bænum, en hann fór einnig sjálfur að spila smávegis. Seinna meir keyrði hann og frændi minn mig um allt land á golfmót,“ segir Ásta Birna, en árangur hennar vakti hvarvetna mikla athygli, ekki síst fyrir þá staðreynd að hún hóf ferilinn á Djúpavogi þar sem æfingaaðstaðan var ekki góð eða mikill áhugi á íþróttinni.“

„Það voru aldrei neinar skipulagðar æfingar“
Ásta Birna segir áhugann á golfi á Djúpavogi hafa farið ört vaxandi á þeim tíma sem hún spilaði þar og að aðstaðan hafi verið bætt mikið.

„Frændi minn reif starfið upp með dugnaði sínum. Ef ég man rétt þá voru um 30-40 í klúbbnum á þessum tíma sem var mikið miðað við stærð samfélagsins. Það komu kylfingar frá Austfjörðum í mót hjá okkur og þetta var skemmtilegur tími. Einnig við sóttum líka mót sem voru haldin annars staðar í fjórðungnum. Ég spilaði mest með frænda mínum og vinum hans. Ég vildi vinna þá og keppnisskapið var alltaf til staðar hjá mér. Það voru aldrei neinar skipulagðar æfingar, ég var bara í því að spila, en á tímabili var sett upp mótaröð fyrir okkur krakkana sem að voru í golfi á þessum tíma á Djúpavogi,“ segir Ásta Birna.

Byrjaði að keppa tíu ára
Ásta Birna byrjaði að keppa þegar hún var tíu ára.

„Mitt fyrsta mót var klúbbmeistaramót á Djúpavogi sem var níu holu mót. Ég fékk að spila með konunum í mótinu af því að ég var eini krakkinn, það gladdi þær mikið að hafa fengið mig í hópinn þar sem að ég vann á 72 höggum. Ég byrjaði að keppa á unglingamótaröðinni 2003 sem að fór að mestu leiti fram á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta mótið mitt var Íslandsmótið í holukeppni á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keilir, þar endaði ég í öðru sæti. Sama ár varð ég stigameistari í mínum aldursflokki. Árið 2004 var ég valin í landsliðið og fór með því í nokkrar æfingaferðir til Florida og Spánar, en ég var í landsliðinu til 2009. Á árinu 2004 skipti ég um klúbb og fór yfir í Keilir frá Djúpavogi. Þau ár sem að ég spilaði í unglingaflokkunum var ég alltaf ofarlega,“ segir Ásta Birna, en hún varð meðal annars Íslandsmeistari í holukeppni árið 2008 og sigarði einnig önnur mót á Eimskipsmótaröðinni.


Reynir að komast heim einu sinni til tvisvar á ári
Ásta Birna flutti til Þýskalands árið 2009 þar sem hún lærði sjúkraþjálfun og útskrifaðist vorið 2013.

„Síðan þá hef ég ekki verið mikið heima. Ég reyni þó að koma einu sinni til tvisvar á ári og er annaðhvort í Reykjavík hjá eldri systur minni og fjölskyldu hennar eða heima á Djúpavogi hjá pabba og mömmu og yngri systur minni,“ segir Ásta Birna sem leikur í dag með Golfclub Hubbelrath í 1. Bundesligu.

„Ég spilaði í þrjú ár fyrir klúbbinn hér í Lippstadt en náði ekki miklum framförum, en á þeim tíma var ég í fullu námi og náði ekki að leggja áherslu á golfið eins og ég hefði viljað. Fyrir tímabilið 2013 skipti ég um klúbb og fór til Goflclub Paderborner Land þar sem ég var í fjögur ár. Við komumst upp í 2. Bundesligu tímabilið 2016 en féllum því miður aftur niður um deild um haustið. Ég skipti síðan aftur um klúbb fyrir tímabilið 2017 og fór yfir í einn sterkasta klúbb Þýskalands þar sem ég er núna. Við enduðum í 3. sæti í okkar riðli, planið var að ná öðru sæti til þess að komast inn í lokakeppnina um Þýskalandsmeistarann en það tókst því miður ekki þetta árið. Í lokakeppninni komast tvö bestu liðin úr norður riðlinum og tvö bestu úr suður riðlinum sem keppa síðan um Meistaratitilinn. Keppnin í því móti er svipuð svokallaðri Sveitakeppni heima á Íslandi. Einnig hef ég tekið þátt í þremur til fjórum alþjóðlegum mótum á ári, í Hollandi, Skotlandi, Danmörku og hér í Þýskalandi."


Golfið er gott fyrir alla
Ásta Birna segir golfíþróttina góða fyrir alla og ekki síst börn.

„Þetta er rosalega góð íþrótt upp á einbeitningu, þolinmæði, hreyfingu og ekki síst útiveru. Krakkar í dag eru því miður mikið inni og þekkja ekkert orðið að leika sér úti. Einnig er golfíþróttin mjög félagsleg og maður getur stundað golf á öllum aldri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar