Karfa: Höttur tapaði fyrir Þór frá Akureyri

karfa_hottur_thorak_0056_web.jpgHöttur tapaði i gærkvöldi lokaleik sínum i fyrstu deild karla í körfuknattleik gegn Þór fra Akureyri 98-125 en liðin mættust á Egilsstöðum. Þjálfari liðsins segir að byggja verði upp breiðari hóp fyrir næstu leiktíð.

 

Þór tryggði sér með sigrinum annað sæti deildarinnar og heimaleikjarétt í umspili um sæti í úrvalsdeild. Þór Þorlákshöfn varð deildarmeistari og fer beint upp en Breiðablik, Valur og Skallagrímur spila við Akureyrarliðið um seinna lausa sætið. Höttur varð í 7. sæti með 10 stig

Leikurinn var jafn fyrstu fimm mínúturnar en um miðjan fyrsta leikhluta stungu Þórsarar af og voru 17-31 yfir eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn spiluðu þokkalega í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 51-60.

Akureyringar settu allt á fulla ferð í þriðja leikhluta. Þeir lokuðu á lykilmann Hattar, Daniel Terrell, en röðuðu sjálfir körfunum niður. Akureyringar komust i þrjatíu stiga forskot, 59-89 en Hattarmenn minnkuðu muninn í 70-96 fyrir lok leikhlutans.

Nokkrir af yngri leikmönnum Hattar svo sem hinn nýkrýndi bikarmeistari Andrés Kristleifsson fengu nokkrar mínútur í kvöld sem og þeir Sigmar Hákonarson og Anton Helgi Loftsson. Varla er hægt að segja að Þórsarar hafi nokkurn tíman verið í vandræðum með að tryggja sér annað sætið og heimaleikjarréttinn í úrslitakeppninni.

Óðinn Ásgeirsson átti stórleik í liði Þórs, skoraði 32 stig, tók 10 fráköst og varði tvö skot með tilþrifum. Daniel Terrell skoraði 37 stig fyrir Hött og Omar Khanani 31.

Viggó Skúlason, þjálfari Hattar, segir tímabilið hafa verið ákveðin vonbrigði. „Við náðum einu af markmiðum okkar með að halda okkur í deildinni en okkur langaði í úrslitakeppnina.

Það voru leikir sem voru mjög jafnir en féllu ekki okkar megin eins og tveggja stiga tap gegn Skallagrími á heimavelli og tvíframlengdur leikur gegn Ármanni. Jafnvægið í hópnum var lítið, erlendir leikmenn voru að koma og fara og okkur vantaði einfaldlega meiri breidd.“

Höttur hefur skorað um og yfir níutíu stig í seinustu leikjum en það hefur ekki dugað til sigurs. „Ætli vörnin sé ekki í farin í frí. Ef þú skorar 98 stig áttu að geta unnið en þessi tölfræði sýnir að það er vörnin sem vinnur leikina.

En við höfum átta mánuði til að breyta því. Við eigum góðan yngri flokk til að byggja á. Vonandi er þetta byrjunin á einhverju.“

Viggó, sem tók við Hattarliðinu fyrir leiktíðina, hefur ekki ákveðið hvort hann haldi áfram með liðið. „Nú er að setjast niður. Maður á aldrei að segja aldrei en ég reikna ekki með að halda áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.