Karfa: Höttur úr leik eftir tap fyrir Skallagrími

hottur_hamar_karfa_16022012_0017_web.jpg

Keppnistímabilinu hjá Hetti í körfuknattleik er lokið eftir 77-88 tap fyrir Skallagrími í öðrum leik liðanna í undanúrslitum fyrstu deildar á sunnudag. Stórleikur Mike Sloan, sem skoraði 44 stig, dugði ekki til. Borgnesingar leiddu allan leikinn.

 

Leikurinn byrjaði ekki byrlega fyrir Hattarmenn, sérstaklega ekki þjálfarann Viðar Örn Hafsteinsson, sem var í byrjunarliðinu. Hann fékk þrjár villur á fyrstu fjórum mínútum, jafnvel ekki fyrir miklar sakir. Þetta varð til þess að hann gat lítið beitt sér í leiknum. 

Þá urðu Hattarmenn fyrir áfalli skömmu fyrir úrslitakeppnina þegar Eysteinn Bjarni Ævarsson fingurbrotnaði. Hann var ekki endilega alltaf í byrjunarliðinu en skipti miklu máli við að breikka hópinn. Höttur saknaði hans sárt á sunnudag.

Í vandræðum með Flake

Hinn gamalreyndi Darrell Flake fór mikinn í liði Skallagrímsmanna í fyrri leiknum og hann var lykilmaður í fyrsta leikhluta á sunnudag. Hann fékk boltann inn í teignum , dró til sín varnarmann og sendi hann síðan út á lausan mann. Fyrsti leikhlutinn var þó jafn og Höttur 21-20 yfir að honum loknum.

Flake hvíldi sig fyrstu mínútuna í öðrum leikhluta og var Höttur 26-23 yfir þegar hann snéri aftur. Þá fór að halla undan fæti. Staðan breyttist fljótlega í 26-32 og þá tekur Höttur leikhlé. Frosti Sigurðsson kom inn á og skoraði góða körfu en það skipti Skallagrímsmenn engu máli því þeir skoruðu níu stig í röð og breyttu stöðunni í 28-41.

Viðar Örn kom aftur inn á til að þétta vörnina en það entist ekki lengi, hann hafði aðeins verið inn á tíu sekúndur þegar fjórða villan kom. Mike Sloan tók á móti til sinna ráða og eftir stórleik hans var staðan 43-46 í hálfleik.

Örugg forusta Skallagríms

Skallagrímsmenn höfðu 4-6 stiga forskot í upphafi þriðja leikhluta en Hattarmönnum gekk illa að skora og þeir leikhlutinn var hálfnaður voru þeir 49-61 undir. Viðar Örn tók þá leikhlé sem litlu skilaði og aftur í stöðunni 51-67. Staðan í lok leikhlutans var 58-71.

Hattarmenn hafa oft leikið vel á lokasprettinum í vetur og þeir áttu svo sem sínar rispur í fjórða leikhluta. Bjarki Oddsson, Sloan og Andrés Kristleifsson stálu nokkrum boltum . Skallagríms voru samt með undirtökin, 63-81 en þá komu sex Hattarstig í röð. Þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan 73-83. 

Síðasta leikhléið tók Höttur þegar tvær mínútur og sautján sekúndur voru eftir. Munurinn var þá aðeins sex stig, 77-83. Í leiknum í Borgarnesi brutu Hattarmenn ákaft síðustu tvær mínúturnar og náðu þá að minnka muninn skjótt.

Það gekk ekki alveg jafn vel að þessu sinni. Baráttan skilaði sér í gegnum Andrés sem henti sér á eftir hverjum einasta bolta. Aðrir söfnuðu villum.

Viðar og Mike reknir út af

Viðar Örn fékk tæknivillu við að fara inn í vítateig eftir fyrra víti. Nokkrum sekúndum síðar setti hann olnbogann í andlit Harðar Helga Hreiðarssonar, fékk óíþróttamannslega villu og þurfti að yfirgefa völlinn þegar tvær mínútur voru eftir. Mike Sloan fékk sína fimmtu villu þegar rúm mínúta var eftir fyrir að hrinda á bak Flake í baráttu um fráköst. 

Flake gat í raun gert út um leikinn með að hitta úr vítaskotunum tveimur en hann misnotaði þau bæði. Höttur fékk því eina lokasókn í stöðunni 77-83. Skörð voru í sóknarleiknum með Viðar og Mike á bekknum. Miðvörðurinn Trevon Bryant tók þriggja stiga skotið en það geigaði. Skallagríms skoruðu á móti síðustu fimm stigin af vítalínunni.

Borgnesingar unnu á breiddinni

Það var breiddin sem skipti sköpum fyrir Borgnesinga. Þeir voru með tvo Kana, auk Flake sem kominn er með íslenskan ríkisborgararétt. Að reyna að vinna upp forskot kostar mikla orku og henni eyddu Hattarmenn tvisvar í leiknum. Skallagrímsmenn höfðu yfirhöndina í fráköstunum, sérstaklega mikilvægu fráköstunum og keyrðu upp hraðann. Þá voru þeir með 40% nýtingu í þriggja stiga skotum.

Ungt og efnilegt Hattarlið má þó vel við una eftir veturinn. Liðið hefur verið í fallbaráttu undanfarin ár en komst nú í úrslitakeppni í fyrsta sinn síðan 2005, vorið sem liðið fór upp í úrvalsdeild í fyrsta og eina sinn.

Mike Sloan var langstigahæstur Hattarmanna með 44 stig og Bjarki Oddsson skoraði tólf. Aðrir leikmenn skoruðu minna en tíu stig. Trevon Bryant tók 16 fráköst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.