Kafaði í gamlar rímur um ástina

Gímaldin og Hafþór Ólafsson eru á ferð um Austfirði og halda tónleika í Neskaupstað í kvöld og á Seyðisfirði annað kvöld. Þeir flytja nýtt efni sem byggir þó á aldagömlum grunni.

„Ég fékk smá auka tíma meðan fyrri bylgja Covid-19 faraldursins gekk yfir og lagðist yfir rímur og kveðskap frá 13. og 14. öld,“ segir Gísli Magnússon Bergþóruson, sem kemur fram undir listamannsnafninu Gímaldin.

„Ástin var eina leiðin til að komast í gegnum Covid-ið þannig ég fór að rannsaka rímur um ástina. Það endaði með að ég gerði tíu lög,“ segir hann.

Hann segir hafa verið áhugavert að grafa í þessa gömlu texta sem samdir voru í allt öðru þjóðfélagi. Fólk lifði þá dreift og það kemur fram í mörgum textanna. „Ástríðan var oft mun meiri þegar fólk var fjarri hvert öðru. Það heillaði mig hvernig fólk nálgaðist hugmyndir um ástina á þessum tíma.“

Hinn þjóðlegi kveðskapur tekur á sig ýmsar myndir með bæði raftónlist og þungarokki. Með Gímaldin á ferð er Hafþór Ólafsson, yfirleitt kenndur við tríóið Súkkat en þeir hafa unnið saman áður. Gísli býr á Höfn en Hafþór í Reykjavík og þar til þeir náðu loks að hittast í október sendu þeir tónlistina á milli sín. Plata er svo væntanleg síðar í haust. „Núna fannst okkur gráupplagt að fara saman á túr og dreifa ástinni,“ segir Gísli.

Þeir koma fram á Hildibrand í Neskaupstað í kvöld og Herðubreið á Seyðisfirði annað kvöld. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan 21:00. Aðgangseyrir er 3000 krónur og enginn posi er á staðnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.