Þjálfarinn: Það er enginn klisja hversu tilfinningin er ljúf

karfa_hottur_stjarnana_bikar_10fl_0146_web.jpg„Tilfinningin er ljúf. Menn eru alltaf að tala um hvað þetta sé sérstakt og maður heldur að það sé bara klisja en hún er það ekki,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari tíunda flokks Hattar í körfuknattleik, eftir að liðið varð bikarmeistari í sínum flokki í dag eftir 64-61 sigur á A liði Stjörnunnar.

 

Höttur hafði lengst af undirtökin í leiknum en Stjarnan var aldrei langt undan. Taugarnar voru þandar í lokin þegar Stjarnan fékk þrjú skotfæri til að jafna í sinni seinustu sókn.

„Það er bara fyrir alvöru karlmenn að standa í svona leikjum. Við mættum hörkuliði Stjörnunnar og úr varð hörkuleikur. Fyrir okkur var þetta bara skemmtilegt.“

Stjarnan snéri leiknum sér í vil eftir að Höttur hafði verið yfir eftir fyrsta leikhluta, var yfir í hálfleik, 31-32 og leiddi fram í miðjan þriðja leikhluta.

„Vörnin var góð allan tímann en skotin duttu ekki í öðrum leikhluta. Ég held að í hálfleik hafi nýtingin okkar í þriggja stiga skotum verið 2/15. Við erum með hörkskyttur og við vissum að þær myndu fara að hitta í seinni hálfleik. Þetta eru töffarar. Bjarni (Þór) Harðarson kláraði leikinn með þriggja stiga skotum,“ sagði Viðar en Bjarni skoraði þjár af fjórum þriggja stiga körfum sínum í lok þriðja leikhluta og í þeim fjórða.

Þetta er í fyrsta skipti sem lið frá Austurlandi vinnur landskeppni á vegum Körfuknattleikssambands Íslands. „Þetta er eitthvað sem mann langar til að gera oftar. Vonast skapast hefð fyrir þessu fyrir austan.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.