Íþróttir: Höttur með mikilvægan sigur eftir jafnar lokasekúndur

Höttur vann sinn annan leik í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið vann Þór Akureyri 83-84 á útivelli í gærkvöldi. Eysteinn Bjarni Ævarsson gerði gæfumuninn með magnaðri innkomu í lokin. Úrslitakeppnin í blaki heldur áfram um helgina sem og bikarkeppnin í knattspyrnu.

Höttur byrjaði leikinn í gærkvöldi betur, var 17-22 yfir eftir fyrsta leikhluta og voru á góðri siglingu en lentu í frosti síðustu 2,5 mínúturnar í hálfleiknum. Þá skoruðu Þórsarar 11 stig í röð og breyttu stöðunni úr 35-41 í 46-41.

Þeir héldu því forskoti og voru 68-62 yfir fyrir síðasta leikhlutann. Fyrri hluta hans var munurinn 2-3 stig en það sem snéri leiknum var þegar Eysteinn Bjarni kom inn um miðjan leikhlutann í stöðunni 73-68. Á þessum kafla átti hann eina stoðsendingu, tók þrjú dýrmæt fráköst auk þess að skora öll stigin sín sjö í leiknum.

Hann jafnaði í 80-80 og aftur í 82-82. Þórsara fengu víti en nýttu aðeins annað þeirra og Michael Mallory skoraði fyrir Hött þegar 3,8 sekúndur voru eftir. Þórsarar tóku leikhlé og gátu þannig sett upp í kerfi en Eysteinn Bjarni komst inn í innkastið og þannig hélt Höttur sigrinum. Mallory var stigahæstur með 25 stig auk þess sem hann átti 8 stoðsendingar.

Höttur, Njarðvík og Haukar eru nú jöfn á botninum með 12 stig en Höttur telst efst þeirra vegna innbyrðis viðureigna. Liðið hefur nú unnið tvo leiki í röð á útivelli og mætir næst Þór Þorlákshöfn á heimavelli á mánudagskvöld.

Í samtali við Körfuna eftir leik sagðist Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, vera ánægður með að liðið hefði haft sigurinn. Það væri þroskamerki sem og að vinna sig út úr erfiðum köflum í leiknum. Það sem þyrfti að gera til að halda liðinu í deildinni væri einfalt, að vinna leikina þrjá sem eftir eru.

Úrslitakeppnin í blaki

Úrslitakeppni kvenna í blaki heldur áfram í kvöld þegar Þróttur sækir Álftanes heim í seinni leik liðanna. Þróttur vann fyrri leikinn í Neskaupstað á þriðjudag 3-0.

Deildakeppninni karla lauk í gærkvöldi. Notast var við meðalstig í sætaröðun þar sem ekki náðist að spila allar umferðirnar. Þróttur varð í 6. sæti með 1,25 stig að meðaltali í leik. Liðin í 8. og 9. sæti leika úrslitaleik um laust sæti í úrslitakeppni átta liða. Þegar er ljóst að Þróttur mætir þar KA í leikjum 9. og 12. maí.

Bikarkeppnin í knattspyrnu

Bikarkeppni karla heldur áfram um helgina hjá austfirsku liðunum og kvennaliðin hefja leik. Hjá körlunum mætast Fjarðabyggð og Sindri í Fjarðabyggðarhöllinni á morgun og Leiknir og Höttur/Huginn þar á sunnudag. Um síðustu helgi vann Höttur/Huginn Einherja 7-1 í fyrstu umferðinni. Hjá konunum tekur Sindri á móti Einherja á sunnudag.

Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.