Íþróttir helgarinnar: Lið Þróttar unnu einn leik af fjórum gegn Aftureldingu

Blaklið Þróttar riðu ekki feitum hesti frá viðureignum sínum gegn Aftureldingu í Neskaupstað um helgina. Körfuknattleikslið Hattar vann baráttusigur á Hamri á útivelli.

Karla- og kvennalið Þróttar léku samanlagt fjóra leiki við Aftureldingu um helgina og unnu einn þeirra. Það var karlaliðið sem vann fyrri leik sinn í oddahrinu.

Afturelding vann fyrstu hrinuna 23-25 en Þróttur jafnaði með að vinna aðra hrinu 25-19. Þriðju hrinuna vann Afturelding 16-25 en Þróttur náði í oddahrinu með að vinna þá fjórðu 25-23. Hana vann Þróttur 15-11.

Afturelding snéri taflinu við í seinni leiknum í gær og vann hann í oddahrinu. Þróttur vann fyrstu hrinuna örugglega 25-14 en Afturelding næstu tvær 22-25 og 16-25. Þróttur náði aftur í oddahrinu með að vinna fjórðu hrinuna 25-14.

Sú varð æsispennandi, Þróttur fékk tækifæri til að vinna bæði í stöðunni 15-14 og 16-15 en Afturelding bjargaði sér, náði forskotinu og vann 19-21.

Karlaliðið er neðst í deildinni og var sigurinn á laugardag sá fyrsti sem liðið nær í vetur. Um er að ræða ungan leikmannahóp sem talsverðar breytingar hafa orðið á milli ára.

Brokkgengt hjá kvennaliðinu

Kvennaliðið tapaði báðum leikjum sínum fyrir Aftureldingu, þeim fyrri á laugardag 1-3. Þróttur vann þar aðra hrinuna 25-22 en tapað hinum 19-25, 23-25 og 17-25.

Afturelding vann svo seinni leikinn í gær 0-3, 19-25, 21-25 og 23-25.

Gengi kvennaliðsins hefur verið nokkuð brokkgegnt það sem af er tímabili. Í lok október vann það KA tvisvar á útivelli, en KA liðið styrkti sig verulega í sumar með að fá Helenu Kristínu Gunnarsdóttur og Paulu Gomez frá Þrótti.

Enn eru þetta einu leikirnir sem KA hefur tapað í deildinni. Eftir þá rimmu hefur Þróttur tapað tveimur leikjum gegn Völsungi á útivelli og tveimur leikjum gegn Aftureldingu á heimavelli. Liðið er í fjórða sæti deildarinnar nú þegar deildin er farin í jólafrí og sér fram á baráttu fyrir að trygga sig inn í úrslitakeppnina. Vonir eru hins vegar bundnar við að liðið styrkist fyrir vorið með endurkomu Önu Vidal.

Sex stig á 15 sekúndum

Höttur komst upp í annað sætið í fyrstu deild karla í körfuknattleik á föstudag með hörkusigri á Hamri í Hveragerði, 98-99.

Höttur var með frumkvæðið í leiknum fram í miðjan fjórða leikhluta að heimamenn komust einni yfir. Þegar Þegar 16 sekúndur voru eftir af leiknum skoruðu heimamenn og komust í 97-93.

Eftir leikhlé Hattar setti Bandaríkjamaðurinn Charles Clark niður þriggja stiga skot og minnkaði muninn í 97-96. Hamarsmenn fóru í sókn og þeirra Bandaríkjamaður, Everage Richardson, fékk víti. Hið seinna fór niður þannig staðan varð orðin 98-99.

Hattarmenn lögðu af stað í sókn, Clark keyrði að körfunni, skoraði og fékk víti að auki sem hann setti niður og breytti sögunin í 98-99. Hamarsmenn áttu leikhlé inni sem þeir nýttu og hófu sókn sína þegar sex sekúndur voru eftir af leiktímanum en misstu boltann og Höttur fór heim með stigin.

Clark var heitur á föstudag, skoraði 41 stig og Andrée Michelsson 30. Þá var David Ramos drjúgur með 12 stig og 11 fráköst og Hreinn Gunnar Birgisson skoraði 11 stig.

Nokkuð hefur gengið á í kringum Hattarliðið en í vikunni fyrir leik var miðherjinn Pranas Skurdauskas rekinn fyrir óásættanlega hegðun utanvallar.

Síðasti leikur Hattar fyrir jólafrí verður á fimmtudag gegn toppliði Þór Akureyri sem aðeins hefur tapað einum leik í vetur, fyrri leiknum gegn Hetti. Höttur er í öðru sæti deildarinnar, jafn Fjölni með 14 stig, fjórum stigum frá Þór en á leik til góða á nýju ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.