Íslandsglíman á Reyðarfirði á laugardag

Glímt verður um Grettisbeltið og Freyjumenið í íþróttahúsinu á Reyðarfirði á laugardag. Þetta er í þriðja sinn sem elsta Íslandsglíman, elsta íþróttamót landsins, er haldin þar.

Hún fór fyrst fram þar árið 2011 en síðan aftur árið 2015. Íslandsglíman var fyrst haldin árið 1906 og þá jafnframt keppt um Grettisbeltið sem sigurvegarinn í karlaflokki hlýtur. Glíman í ár er sú 111. í röðinni.

Árið 2015 unnu Reyðfirðingar Grettisbeltið í fyrsta sinn, Sindri Freyr Jónsson náði því þá. Ásmundur Hálfdán Ásmundsson vann það ári síðar og hefur haldið því síðan.

Hann mætir til að verja beltið í ár en þarf til þess að leggja félaga sína Hjört Elí Steindórsson, Snjólf Björgvinsson, Hákon Gunnarsson, Þórð Ólafsson og Ægi Örn Halldórsson sem keppa undir merki UÍA en æfa með Val á Reyðarfirði. Að auki eru tveir keppendur úr Njarðvík og einn úr Mývetningi.

Freyjumenið er yngra, glímt hefur verið um það síðan árið 2000. Eva Dögg Jóhannsdóttir varð fyrst Reyðfirðinga til að vinna það í glímunni 2015. Kristín Embla Guðjónsdóttir náði því síðan 2018.

Hún er sú eina í glímunni í ár sem hefur unnið það áður og jafnframt eini keppandi UÍA. Að auki eru fjórir keppendur frá Glímufélagi Dalamanna og einn úr Njarðvík. Jana Lind Ellertsdóttir, sem vann keppnina í fyrra, er ekki meðal þátttakenda í ár.

Keppnin hefst klukkan 13:00.

Úr Íslandsglímunni 2011

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.