Hvetur fólk „hinu megin skarðs“ til að taka þátt

„Ég vona bara að sem flestir mæti, bæði til þess að njóta skemmtilegrar hlaupaleiðar sem og að styrkja knattspyrnudeild Þróttar,“ segir Helgi Freyr Ólason, formaður deildarinnar um Hágarðahlaupið sem fram fer fjórða árið í röð í Neskaupstað á laugardaginn.


Mæting er klukkan 10:00 við Norðfjarðarvita þar sem skráning fer fram en sjálft hlaupið hefst klukkan 10:30. Hlaupið er í snjóflóðavarnargörðunum ofan við bæinn.

„Líkt og áður eru vegalengdir og erfiðleikastig þannig að allir geti verið með. Við erum með svokallað ofurhlaup sem er 8,2 kílómetrar, en það mun reyna á snerpu og þol. Þá verður 5 kílómetra skokkleið, einnig léttganga þar sem lögð er áhersla á þægilega gönguleið að ógleymdu krakkahlaupinu – þannig að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Helgi Freyr.

Mikilvæg fjáröflun fyrir knattspyrnudeildina
Helgi Freyr segir hlaupið mikilvægan þátt í fjáröflun knattspyrnudeildarinnar, en styrktaaðilar þess eru; SÚN, Síldarvinnslan, VHE, Landsbankinn og Sparisjóðurinn.

„Þarna erum við með öfluga fjáröflun og búum til skemmtilegan viðburð í bænum í leiðinni. Flestir iðkendur knattspyrnudeildar Þróttar taka þátt, en alls eru þeir 116 talsins. Við viljum einnig hvetja fólk „hinu megin skarð“ til þess að koma og hlaupa með okkur, þetta er alls ekki aðeins hugsað fyrir Norðfirðinga,“ segir Helgi Freyr, en allir þátttakendur frá frítt í sund að hlaupi loknu.

Ljósmynd: Kristín Hávarðsdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar