„Hvernig væri að stíga út fyrir þægindarammann?“

„Það er stutt í hlaup og allir orðnir spenntir,“ segir Jóhann Trggvason, einn þeirra sem stendur að Barðsneshlaupinu sem haldið verður á laugardaginn, tuttugasta og annað árið í röð.



Bæði er hægt að hlaupa Barðsneshlaup (27 kílómetrar) og hálft. „Við siglum með þá sem fara í lengra hlaupið á björgunarsveitartuðrum frá miðbænum í Neskaupstað, þvert yfir flóann, að bæ sem heitir Barðsnes og hlaupið er kennt við, en hann fór í eyði í kringum 1956 eins og flestir bæirnir í kring. Þaðan er hlaupið inn Viðfjörð, yfir í Hellisfjörð og svo yfir á Norðfjörð og endað í bænum. Þeir sem kjósa hálft hlaup byrja í Hellisfirði, en það er samt sem áður erfiðasti hluti leiðarinnar, mesta hækkunin er þaðan.“

Að meðaltali taka um 40 hlauparar þátt ár hvert. „Þegar mest lét voru um 80-100 hlauparar, en síðustu árin hafa verið í kringum 40, en það er mjög þægilegur hópur fyrir okkur að vinna með.“

Hlaupið er talið frekar erfitt. „Það er nú betra að hafa undirbúið sig eitthvað. Þeir sem þó eru í einhverri hreyfingu ættu þó alveg að geta hlaupið styttra hlaupið, við erum ekkert að fetta fingur útí það þó svo einhverjir gangi upp bröttustu brekkurnar, það á hver og einn að hlaupa fyrir sig, ekki tímann. Hvernig væri að stíga út fyrir þægindarammann og taka þátt?“

Mætir Þorbergur Ingi og slær eigið met?
Brautarmetið á Norðfirðingurinn Þorbergur Ingi Jónsson, en það er 1.54.55. Um síðustu helgi hafnaði Þorbergur Ingi í öðru sæti af 1292 hlaupurum í utanvegahlaupi í Frakklandi. Hlaupið heitir LA 6000D og er 65 km með 3500m hækkun, en hann lauk því á 6:12:07.

„Það getur alveg verið að Þorbergur Ingi mæti á laugardaginn, en hann er sjálfur ættaður frá Barðsnesi og þykir frábært að hlaupa á sínum heimaslóðum. Það er alltaf spennandi þegar hann mætir, ekki hvort hann vinni hlaupið en það gerir hann alltaf, heldur hvort hann slái gamla metið sitt.

Ég talaði við hann í gær og hann sagði að það væri ekki spurnig um að hann myndi slá metið ef við myndum hreinsa lausagrjótið úr skriðunum. Ég er því bara að fara að klæða mig í gallann og skokka út í skriður. Hann er ekki búinn að boða komu sína formlega en ég sendi honum myndir í kvöld þess efnis að búið sé að hreinsa skriðurnar,“ segir Jóhann vongóður og bætir því við að spáin sé góð fyrir helgina. „Það á að vera hæg suðvestan átt sem eru kjöraðstæður fyrir okkur. Það væri kannski frekar að við ættum að óttast að veðrið verði of gott, en nei, nei, það er bara kostur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.