Höttur tapaði fyrir BÍ

Höttur tapaði í dag heima fyrir BÍ/Bolungarvík í 2. deild karla í knattspyrnu. Öll austfirsku karlaliðin spiluðu í dag og kvennaliðin mættust í vikunni.

 

hottur_bi_0025_web.jpgMark vestanmanna kom tíu mínútum fyrir leikslok en skot kantmannsins Andra Rúnars Bjarnasonar fór í varnarmann og inn. Jafnræði var með liðunum í leiknum.

Fjarðabyggð gerði 1-1 jafntefli við Njarðvík á útivelli. Bæði mörkin komu úr vítaspyrnum. Jóhann Ragnar Benediktsson kom Fjarðabyggð yfir á 84. mínútu en stuttu áður hafði samherja hans, Daniel Sakaluk, verið vikið af leikvelli eftir að hafa fengið tvö gul spjöld. Njarðvíkingar jöfnuðu úr vítaspyrnu á 90. mínútu sem dæmd var á markvörð Fjarðabyggðar, Srdjan Rajkovic, sem fékk rauða spjaldið fyrir brotið.

Á Fáskrúðsfirði gerðu efstu liðin í D riðli þriðju deildar, Leiknir og Dalvík/Reynir 2-2 jafntefli. Jóhann Jónsson kom Leikni yfir um miðjan fyrri hálfleik og í upphafi þess seinni skoraði Vilberg Marinó Jónasson annað mark heimamanna. Mörk gestanna voru skoruð á 81. og 84. mínútu. Í lok leiksins varði markvörður Dalvíkinga vítaspyrnu Marínós Sigurbjörnssonar. Þetta eru fyrsti leikurinn í sumar sem Dalvík/Reynir vinnur ekki.

Huginn burstaði Draupni 4-0 á Seyðisfirði. Einum gestanna var vikið af velli eftir um hálftíma leik en fyrsta markið kom ekki fyrr en á 52. mínútu. Það skoraði Friðjón Gunnlaugsson. Hann skoraði aftur fimm mínútum síðar. Undir lok leiksins bætti Jack Hands við tveimur mörkum í fyrsta leik sínum fyrir Huginn.

Einherji vann Samherja 1-3 á Akureyri. Gunnlaugur Bjarnar Baldursson kom Einherja yfir í en heimamenn jöfnuðu fyrir hlé. Símon Svavarsson og Davíð Ólafsson skoruðu hvor sitt markið í seinni hálfleik.

Í vikunni gerðu kvennalið Fjarðabyggðar/Leiknis og Hattar 1-1 jafntefli á Eskifirði. Andrea Magnúsdóttir kom heimaliðinu yfir snemma í seinni hálfleik en Arna Óttarsdóttir jafnaði þegar um kortér var eftir.

Í gærkvöldi féll kvennalið Fjarðabyggðar/Leiknis úr leik í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar þegar liðið tapaði 9-0 fyrir úrvalsdeildarliði Þór/KA á Akureyri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.