Höttur tapaði eftir tvíframlengdan leik

ImageÁrmann vann í dag Hött 69-67 í 1. deild karla í körfuknattleik í Laugardalshöll. Úrslitin réðust eftir tvær framlengingar þar sem Ármenningar björguðu sér tvisvar fyrir horn, þar af í fyrra skiptið með flautukörfu.

Leikmönnum beggja liða gekk bölvanlega að hitta körfuna í leiknum. Stigaskorið í fyrsta leikhluta var sögulega lágt en eftir hann voru Ármenningar 12-6 yfir. Lítillega bætti við í öðrum fjórðungi en staðan í leikhléi var 22-21.

Hattarmenn virtist vera að ná undirtökum í leiknum því eftir þriðja leikhluta var staðan orðin 34-40 og fljótlega í byrjun fjórða leikhluta náðu þeir tíu stiga forskoti, 38-48.

Stigaþurrð

Þá hrökk allt í baklás hjá þeim, Ármenningar söxuðu jafnt og þétt á forskotið og Kristinn Harðarson, miðherji Hattar, fékk sína fimmtu villu.

Inn í hans stað kom Björgvin Karl Gunnarsson, sem loks batt enda á stigaþurrð Hattarmanna með þriggja stiga körfu þegar tæp mínúta var eftir af leiknum. Bandaríkjamaðurinn Daniel Terrell bætti við annarri þriggja stiga körfunni og Hattarmenn virtust með pálmann í höndunum þótt Hermann Maggyarson minnkaði muninn með þriggja stiga körfu.

Ármenningar náðu boltanum þegar 12 sekúndur voru eftir. Þeir fengu innkast þegar þrjár sekúndur voru eftir og Halldór Kristmannsson snéri sér í teignum og jafnaði í 54-54 um leið og flautan gall.

Höttur fékk tækifæri

Hattarmenn voru á undan að skora í fyrri framlenginunni. Ármenningar jöfnuðu samt alltaf og eftir fimm mínútur var staðan 62-62.

Ármenningar byrjuðu á þriggja stiga körfu í seinni framlengunni og komust í 66-62 áður en Hattarmenn rönkuðu við sér og náðu forustu, 66-67.

Ármenningar svöruðu og komust í 68-67. Í lokasókn sinni fengu Hattarmenn tvö úrvalsfæri en brást bogalistinn. Ármenningar náðu boltanum og kláruðu leikinn á vítaskoti.

Nýtingin il skammar

„Það má segja að nýtingin hafi verið til skammar. Við fengum tvö færi til að klára leikinn,“ sagði Viggó Skúlason, þjálfari Hattar í samtali við Agl.is eftir leikinn. „Við fengum opin færi en skotin fóru ekki ofan í.“

Viggó viðurkennir að liðið sé heldur lágvaxið en reynt sé að bæta úr því. Á næstu dögum skýrst hvort liðið fái til sín tveggja metra Breta sem myndi leika gegn Leikni á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld. „Það er fjögurra stiga leikur, þessum tveimur liðum var spáð falli.“

Mikið breytt lið

Mikið mæðir á Daniel Terrell og Viðari Erni Hafsteinssyni í leik liðsins. Þeir byrja og enda flestar sóknir liðsins og dró Terrell liðið áfram framan af framlengingunni þótt fyrir að þjálfara Ármanns fyndist hann einhæfur því hann kallaði „Hann er eins og Zoolander – Can‘t turn left“ inn á völlinn.

„Við erum með algjörlega nýtt lið frá í fyrra,“ útskýrði Viggó. „Við erum með unga stráka og menn sem eru byrjaðir að æfa aftur eftir 4-5 ára hlé. Þessu þurfum við að blanda saman og þessir tveir verða að bera liðið uppi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.