Leiknir: „Höldum áfram meðan það er von“

Enn syrti í álinn hjá Leikni Fáskrúðsfirði í fyrstu deild karla í knattspyrnu þegar liðið tapaði 1-3 fyrir Leikni Reykjavík á heimavelli í gær.


Gestirnir komust yfir eftir rúman hálftíma en Arek Grzelak jafnaði fyrir Leikni af harðfylgi á 58. mínútu. Bæði fyrir og eftir átti Leiknir fínar sóknir en tókst ekki að gera sér mat úr þeim.

Reykjavíkurliðið skoraði hins vegar tvö keimlík mörk með stuttu millibili þegar tæpar 20 mínútur voru eftir. Kantmenn þess hlupu einfaldlega á fullri ferð framhjá bakvörðum Fáskrúðsfjarðarliðsins, sendu fyrir og þar mætti sóknarmaðurinn Ingvar Ásbjörn Ingvarsson og skoraði.

„Við vorum barnalegir í varnarleiknum. Mér finnst við ættum að stoppa þessar sóknir fyrr með broti,“ sagði Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis um mörkin eftir leikinn.

Hann var ekki ósáttur við frammistöðu liðsins heilt yfir. „Við spiluðum ágætlega í fyrri hálfleik. Við ætluðum að vera þéttir og fengum ótrúlega mikið af góðum færum.

Mörk breyta leikjum og að skora hefur verið okkar akkilesarhæll. Þegar mörkin koma ekki verða menn litlir í sér. Við sýndum karakter við að jafna en svo fengum við á okkur mörk.“

Leiknir er neðst í deildinni með sjö sig, fimm stigum frá öruggu sæti þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni. „Staðan er drulluerfið en það er nóg af stigum eftir. Meðan það er von þá höldum við áfram.“

 

Fotbolti Leiknir Leiknir Agust17 0004 Web
Fotbolti Leiknir Leiknir Agust17 0006 Web
Fotbolti Leiknir Leiknir Agust17 0008 Web
Fotbolti Leiknir Leiknir Agust17 0012 Web
Fotbolti Leiknir Leiknir Agust17 0014 Web
Fotbolti Leiknir Leiknir Agust17 0017 Web
Fotbolti Leiknir Leiknir Agust17 0031 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar