Höttur með meistaraflokkslið kvenna í körfu

Höttur sendir nú í vetur sitt fyrsta meistaraflokkslið til keppni á Íslandsmóti kvenna í körfuknattleik. Þjálfari var ráðinn í ágúst og fleiri mættu til æfinga en búist var við. Liðið lék sína fyrstu leiki í 2. deild á Hvammstanga nú um helgina.


Ásthildur Jónasdóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Hattar segir að ákveðið hafi verið að stofna til meistaraflokksliðs kvenna til þess að halda í yngri leikmenn sem hafa áhuga á að æfa körfubolta.

„Það voru tvær stelpur á grunnskólaaldri sem voru að æfa hjá okkur og sýndu mikinn áhuga. Við vildum ekki missa þær kannski annað og þá prufuðum við í fyrra að safna saman stelpum og konum til að æfa,“ segir Ásthildur.

Þá var ekki kominn þjálfari og mætingin var misjöfn á æfingar. „Svo vildum við taka þetta lengra og réðum því Anton Helga Loftson sem þjálfara. Við erum virkilega sátt með hans störf,“ segir hún.

„Viðar Örn Hafsteinsson hringdi í mig í ágúst síðastliðinn fyrir hönd Hattar. Hann spurði mig hreint út hvort ég væri ekki til í að þjálfa nýtt meistaraflokkslið Hattar í kvennaflokki. Ég var til í það og hér er í dag,“ segir Anton.

Hann segir að aðstandendur liðsins hafi ekki vitað við hverju þau áttu að búast. Þau reiknuðu með að mögulega kæmu sjö konur á fyrstu æfingu. Á hana mættu sextán.

„Við erum auðvitað með mjög nýtt lið og við erum bara búin að keppa tvo leiki. Við erum öll að byggja upp nýtt lið. En ég er mjög ánægður með þær,“ segir Anton.

Leikmenn eru á nokkuð breiðu aldursbili. Allt frá 13 ára upp í 35 ára konur. Reynslan er mismikil en Anton segir þær allar mjög duglegar og fúsar til að læra og bæta sig. „Svo finnst mér frábært að sjá hve mikill áhugi er í samfélaginu á að Höttur sé kominn með kvennalið,“ segir hann.

„Við vonumst til að þetta verði til þess að áhugi á körfubolta hjá yngri stelpum aukist og hægt verði að byggja upp öflugt yngri flokka starf fyrir stelpur hjá Hetti,“ segir Ásthildur að lokum en næstu leikir liðsins verða að líkindum í byrjun febrúar. Í 2. deild kvenna er leikið í röð örmóta sem dreift er um landið.



Nýtt meistaraflokkslið Hattar.  Mynd: Ásthildur Jónasdóttir



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.