Helmingur landsliðsins frá Norðfirði

Rúmur helmingur þeirra leikmanna íslenska kvennalandsliðsins sem tekur þátt í Smáþjóðaleikunum hefur einhvern tíman á ferlinum leikið með Þrótti Neskaupstað.

Fjórtán leikmenn eru í landsliðinu og hafa átta þeirra leikið um lengri eða skemmri tíma með Þrótti. Einn núverandi leikmaður er í hópnum, Særún Birta Eiríksdóttir. Það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið að félag úr ekki stærri byggðarkjarna leggi til meira en helminginn af landsliði Íslands í hópíþrótt.

Hinir leikmennirnir eru Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir sem jafnframt er fyrirliði liðsins, Helena Kristín Gunnarsdóttir, Kristina Apostolova, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Gígja Guðnadóttir, Velina Apostolova og Ana Vidal.

Vidal hefur leikið með Þrótti undanfarin ár og er enn skráð leikmaður liðsins en hún og eiginmaður hennar, Borja Vicente sem jafnframt þjálfar landsliðið, hafa skrifað undir samning við Aftureldingu.

Einn uppalinn Norðfirðingur er í karlalandsliðinu, Ragnar Ingi Axelsson.

Á Smáþjóðaleikunum hittist íþróttafólk frá þjóðum með innan við eina milljón íbúa. Leikarnir hafa verið haldnir árlega frá árinu 1985 en þeir eru nú í fyrsta sinn haldnir í Svartfjallalandi. Þar voru þeir settir í gær.

Kvennalandsliðið hóf leik í morgun á 0-3 ósigri gegn Kýpur. Karlaliðið mætir gestgjöfunum síðar í dag. Hvort lið leikur fimm leiki, einn á dag fram á laugardag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.