Haraldur á EM í bogfimi

Haraldur Gústafsson, bogfimimaður úr SKAUST, er meðal keppenda Íslands á Evrópumótinu í bogfimi utanhúss.

Tólf keppendur fóru frá Íslandi á mótið sem haldið er í München í Þýskalandi í þessari viku.

Hvert land má senda eitt lið, sem er skipað þremur einstaklingum, í hverja grein hjá hvoru kyni og fullnýta Íslendingar því kvóta sinn.

Haraldur keppir í sveigboga karla ásamt þeim Oliver Ormari Ingvarssyni og Degi Erni Fannarssyni.

Haraldur hefur verið frumkvöðull í bogfimiíþróttinni á Austurlandi samhliða því að ná góðum árangri sjálfur. Fyrir það var hann valinn íþróttamaður UÍA í vor.

Í febrúar keppti hann á Evrópumótinu innanhúss í Slóveníu og endaði þar í níunda sæti með sveigbogaliðinu. Í undankeppni þess móts sló hann Íslandsmótið í sveigboga karla 50 ára og eldri.

Samhliða mótinu í München er keppt um laus sæti á Evrópuleikunum að ári. Haraldur er meðal þess bogfimifólks sem sett hefur stefnuna þangað. Líklegt er þó að hann þurfi fleiri undankeppnir til að ná því takmarki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.