Hægt að venjast kuldanum en aldrei vindinum

Þrír knattspyrnumenn frá karabíska eyríkinu Trinidad og Tobago spiluðu í sumar með Einherja í þriðju deild karla auk þess sem einn þeirra er þjálfari liðsins. Þeir segja Vopnafjörð hafa verið minni en þeir reiknuðu með en bæjarbúa hafa tekið þeim opnum örmum.

„Samfélagið hér er eins og ein stór fjölskylda – og ekki bara vegna þeirrar staðreyndar að hér eru allir skyldir! Það voru margir sem buðu okkur heim til sín og þannig kynntumst við fjölskyldum þeirra,“ segir sóknarmaðurinn Jareo Bennett í viðtali í vikublaðinu Austurglugganum.

Hann kom hingað í byrjun sumars ásamt þjálfaranum Akim Armstrong og markverðinum Javon Sample. Jareo og Akim höfðu áður spilað í Finnlandi en Javon aldrei utan heimalandsins.

Klæðum okkur minna núna

Þremenningarnir komu til Vopnafjarðar, rétt áður en deildarkeppnin hófst fyrstu helgina í maí. Að koma úr karabíska hafinu í íslenska vorið voru nokkur viðbrigði. Þeir minnast leik úr fjórðu umferðinni gegn Hetti/Huginn á Fellavelli seinni hluta maí.

„Í Finnlandi er spilað meira inni þegar er kalt og ég man ekki eftir þessum vindi þar. Þar kom líka sumar, hitinn var 22-29 gráður. Hér er fólkið ánægt ef hann fer í áttina að 20 gráðum því það er ekki víst hvenær það gerist aftur.

Hér finnur maður stundum ekki fyrir tánum eða fingrunum. Ég held að við höfum vanist kuldanum ágætlega, við klæðum okkur minna núna, en ég held að maður venjist aldrei vindinum,“ segir Jareo.

„Hann er erfiður því hann tekur boltann. Kuldinn er líka sérlega erfiður því ég þarf að standa og bíða. Ég man eftir leiknum gegn Hetti/Huginn klukkan átta að kvöldi, ég hristi mig og sló andlitið til að halda mér heitum. Eftir þann leik hef ég vanist aðeins veðrinu,“ bætir markvörðurinn Javon við.

Smæð Vopnafjarðar kom á óvart

Það voru líka viss viðbrigði fyrir þá að koma til Vopnafjarðar. Þegar þeir eru spurðir að því hvort þeir hafi flett staðnum upp fyrir komuna svarar Akim: „Þetta er spurning sem við höfum fengið oft!“

Hann hlær en bætir svo við: „Við vissum ekki mikið, höfðum séð nokkur myndskeið af liðinu. Það sló okkur aðeins hversu lítill bærinn var en það hefur verið ótrúlegt að vera hér. Fólkið er mjög vingjarnlegt, hefur tekið okkur opnum örmum og við erum afar glaðir með að hafa fengið að kynnast því.“

Minnstu þjóðirnar til að komast á HM

Í Trinidad og Tobago býr rúm milljón manna. Knattspyrnuáhuginn þar er mikill og var þjóðin sú fámennasta sem hafði komist í úrslitakeppni heimsmeistarakeppninnar þar til Ísland komst þangað í fyrra.

„Það má segja að knattspyrnusaga okkar sé að einhverju leyti samtvinnuð. Við höfðum séð Ísland á HM og Evrópukeppninni þannig okkur langaði að sjá víkingana með eigin augum,“ segir Akim.

Allir hafa Trinidadarnir leikið í efstu deildinni í heimalandinu sem er atvinnumannadeild. Þeir fundu því nokkurn mun á menningunni þar og í þriðju deildinni á Íslandi sem er áhugamannadeild.

„Sumir leikmenn hér setja fótboltann ekki í fyrsta sæti og æfa því ekki jafn mikið, borða ekki rétt eða gera annað það sem þarf til að ná árangri í íþróttinni, meðan hún er leikmönnum á Trinidad og Tobago allt. Ég hef séð mjög góða leikmenn hér en þreyta eftir vinnudaginn eða annað slíkt stendur í vegi fyrir að þeir nái lengra,“ segir Akim.

Já, nei og áfram

Sterk hefð er fyrir fótboltanum á Vopnafirði og bæjarbúar fjölmenna á heimaleiki og styðja liðið sitt af mikilli ástríðu. „Við skiljum ekki hvað þeir segja, við kunnum bara: „já, nei og áfram.“ Við sjáum hins vegar orkuna sem býr í áhorfendunum. Þeir eru þeir mögnuðustu í deildinni. Ég hafði tekið eftir því, áður en mér var sagt það, að stuðningsmenn okkar eru í meirihluta á öllum leikjum, jafnvel þótt við spilum á útivelli.

Þeir eru oft óvægnir í garð gestaliðsins þegar við spilum á Vopnafirði, sem er gott fyrir okkur. Þegar lið koma hingað eiga þau ekki að finna sig velkomin. Áhorfendurnir hjálpa okkar liði mikið um leið og þeir gera mótherjunum erfitt fyrir. Við stöndum öll saman vegna þess að við erum lítið lið, stuðningsmennirnir vilja að við berjumst og vinnum og við gerum það til að þóknast þeim því þeir eru að baki okkur,“ segir Akim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.