Guðný Gréta Íslandsmeistari í bogfimi

Guðný Gréta Eyþórsdóttir frá Fossárdal í Berufirði vann í sumar Íslandsmeistaratitil í sveigboga kvenna.  

Guðný Gréta keppir fyrir SKAUST, Skotfélag Austurlands, og hún var ánægð með mótið. „Þetta var skemmtilegt mót, bara frábært. Það var þokkalegt veður og skemmtilegt fólk og svona.“

Á vefsíðunni archery.is, þar sem sagðar eru fréttir af bogfimi á Íslandi, segir að Sigríður Sigurðardóttir úr BF Hróa Hetti hafi verið  talin sigurstranglegri fyrir mótið. Guðný var önnur hæst í undankeppni og eftir fyrstu umferð í útslætti voru þær jafnar 1-1. Eftir það var ekki hægt að stoppa Guðnýu og hún vann allar umferðirnar sem eftir voru og vann 7-1 í lokin.

„Þetta virkar þannig að það er skotið af 70 metra færi utan húss. Þú mætir í keppni og fyrsta daginn þarftu að skjóta 72 örvum. Ef þú hittir í miðjuna færu 10 stig og svo bara alveg ofan í einn eftir því sem þú hittir fjær miðjunni. Svo er útsláttur, þetta eru hálfpatrinn tvær keppnir þar sem fyrsti dagurinn er nokkurskonar undankeppni. Næsti dagur er svo útsláttarkeppni, riðlakeppni nokkurskonar, sem raðast eftir fyrri deginum. Á endanum keppti ég svo á móti þeirri sem hafði verið efst og vann hana,“ segir Guðný

Guðný keppti einnig í berbogaflokki en þar jafnaði hún Guðbjörgu Reynisdóttur úr BF Hróa Hetti en tapaði svo bráðabana. Það mátti því ekki miklu muna að Guðný hefði orðið tvöfaldur Íslandsmeistari. „Ég hef ekkert æft berbogann nema bara í svona mánuð, ég ákvað nú bara að vera með í því svona uppá gamanið en svo gekk það bara svona glimrandi vel líka,“ segir Guðný Gréta. Guðný varð þó í raunninni þrefaldur Íslandsmeistari á mótinu því hún keppti líka í flokki 50+ og sigraði báðar greinar þar. 

Guðný Gréta byrjaði ekki að æfa bogfimi fyrren 2016 og seigist hafa nbyrjað af því að íþróttin hafi heillað sig. „Þetta er bara svo spennandi og skemmtilegt og mig grunaði að þetta gæri verið það. Þetta er líka einstaklingsíþrótt þannig að þú þarft ekki að vera neinum háður um að stunda hana. Ef þú ferð í hópíþrótt þá þarftu að keyra að heiman og svo vonast til að einhver annar mæti í blak, fótbolta eða zumba. Þetta er bara spennandi. Ógeðslega spennandi að vita að þú getir hitt epli af 70 metra færi, það er töff!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.