„Guð minn hvað það er gaman núna að vera frá Norðfirði“

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, blakkona úr Neskaupstað, varð í síðustu viku Svíþjóðarmeistari í blaki með liði sínu Hylte/Halmstad. Liðið vann alla þá titla sem í boði voru í sænsku kvennablaki í vetur.

„Þetta er ólýsanleg tilfinning, einkum því við höfum æft svo ótrúlega mikið í vetur. Suma daga hefur manni þótt nóg um en þegar maður kemst á endalínuna skilur maður ástæðuna,“ segir Jóna Guðlaug.

Hylte/Halmstad hefur haft yfirburði í sænska kvennablakinu í vetur. Fyrr í vetur varð liðið deildar- og bikarmeistari og á leiðinni að sænska meistaratitlinum tapaði liðið aðeins tveimur leikjum, öðrum í lok deildakeppninnar, hinum í undanúrslitum.

„Á endanum tókst þetta“

Í úrslitum mætti liðið Engelholm og hafði betur í tveimur leikjum. Sá seinni, á miðvikudagskvöld, fór reyndar í oddahrinu. „Þetta var svakalega spennandi leikur, ég man varla eftir svona stressi. Það var gaman að úrslitaleikurinn væri þetta erfiður því tímabilið hefur gengið eins og í sögu og við stundum unnið auðveldlega. Þetta var virkilega skemmtilegt blak sem gerði gleðina enn meiri í lokin,“ segir hún.

Jóna Guðlaug hefur leikið í Svíþjóð í sjö ár en áður var hún á mála hjá Örebro. „Það var kominn tími á þetta – er það ekki? Ég hafði komist í úrslit og fengið brons – á endanum tókst þetta!“

Það er líka nóg gull á heimilinu því kærasti Jónu, Marcus Nilsson, varð Svíþjóðar- og bikarmeistari með karlaliðið Hylte/Halmstad. Aldrei áður í sögu sænsks blaks hefur sama félag unnið tvöfalt hjá bæði körlum og konum. Karlaliðið varð hins vegar í öðru sæti í deildakeppninni. Að auki var Jóna Guðlaug valinn í lið ársins.

Mikið af skilaboðum af heimaslóðum

Jóna Guðlaug er fædd í Neskaupstað árið 1989 þar sem foreldrar henni og systkini búa. Hún spilaði með Þrótti fram til ársins 2008 en hélt út í atvinnumennsku eftir að liðið hafði orðið Íslandsmeistari. Hún hefur meðal annars spilað í Frakklandi, Sviss, Þýskalandi og Noregi en þar var hún í liði Stavanger þegar það varð meistari 2010 og 11.

Hún segist hafa fengið mikil viðbrögð frá Norðfirðingum eftir Svíþjóðarmeistaratitilinn. „Guð minn góður hvað það er gaman núna að vera frá Norðfirði. Mér finnst æðislega gaman að fá öll skilaboðin og heyra í Norðfirðingum. Síðan hafa mamma og pabbi líka fengið skilaboð. Ég hef sjaldan verið jafn heimakær og síðustu daga.“

Hún fylgist enn með sínu gamla félagi en bróðurdóttir hennar, Randíður Vigfúsdóttir, kom við sögu í 3-2 sigri í hörkuleik gegn KA á föstudagskvöld. „Ég fylgdist með leiknum með öðru auganu. Það er ekki leiðinlegt þegar líka gengur vel heima. Mér finnst gaman að Randí sé að spila og fylgist með henni.“

Strandblak á Ítalíu

Í sumar ætlar Jóna Guðlaug að keppa í strandblaki í ítölsku mótaröðinni ásamt Thelmu Dögg Grétarsdóttur úr Aftureldingu. „Ég stefni heim á næstunni til að undirbúa það með Thelmu. Við munum spila um hverja helgi og safna stigum sem gætu skilað okkur á alþjóðleg mót.“

Jóna segir nokkur viðbrigði að færa sig af innigólfinu yfir í sandinn. „Þú hugsar öðruvísi. Í inniblakinu er tæknilega séð hægt að ná öllum boltum en ekki í strandblakinu. Það getur verið erfitt að sætta sig við það.

Ég er líka vön að taka stór skref til að hoppa hátt en það er öfugt í strandblakinu. Það tekur tíma að læra að hoppa almennilega. Ég hef hins vegar spilað strandblak áður og það gekk ágætlega. Þá æfði ég ekkert, spilaði bara, þannig ég hef fulla trú á að þetta geti orðið eitthvað.“

Þegar líður á sumarið skýrist næsti vetur. „Það getur vel verið að ég skipti alveg yfir ef strandblakið gengur vel. Ég elska hins vegar inniblak, ég hef enn mikla gleði af að spila og reyni að halda því gangandi meðan ég get það enn. Ég veit að ég er velkominn hér hjá Hylte/Halmstad.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.