Orkumálinn 2024

Grunnurinn úr blakinu hjá Þrótti nýtist vel í markinu

Telma Ívarsdóttir, einn markvarða íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er fædd og uppalinn í Neskaupstað og æfði þar blak og fótbolta jöfnum höndum uns fótboltinn varð ofan á er hún flutti suður og gekk til liðs við Breiðablik.

„Ég æfði blak og fótbolta þar til ég flutti suður. Mamma og pabbi pressuðu aldrei á mig en ég þurfti að hafa eitthvað að gera á daginn því ég er frekar virk.

Blakið hefur nýst mér ágætlega í markinu, sérstaklega fyrst þegar ég ekkert hvað ég var að gera. Þar lærði ég að lesa flug boltans og hvenær ég ætti að stökkva. Ég æfði lengi með meistaraflokki en síðan voru fótboltaæfingarnar á Reyðarfirði þannig að undir lokin var orðið erfitt að púsla þessu saman,“ segir Telma.

Telma spilaði upp í gegnum yngri flokka Þróttar og Fjarðabyggðar uns hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik, fimmtán ára gömul. Það sumar spilaði hún átta leiki og skoraði í þeim eitt mark, gegn Völsungi á Húsavík. „Ég man vel eftir þessu marki. Ég kom inn á sem varamaður á 89. mínútu og skoraði tveimur mínútum síðar, með vinstri en ég er réttfætt,“ rifjar hún upp.

Innan við mánuði síðar var hún komin í markið og var aðalmarkvörður liðsins sumarið á eftir. „Ég var framherji þar til í fjórða flokki að ég var beðin um að spila líka með fjórða flokki því það vantaði markvörð. Ég sagði já við því. Það varð til þess að sumarið 2014 var ég kölluð til æfinga með U-17 ára landsliðinu sem markvörður. Ég vissi ekki að ég hefði verið valin í þá stöðu fyrr en ég mætti á æfinguna.“

Telma var fyrst valin í landsliðið í apríl í fyrra en fyrsti leikurinn kom í febrúar. „Auðvitað vill maður fá að spila en Steini þjálfari ákveður liðið í hverjum leik fyrir sig. Ég er ógeðslega stolt af að hafa verið valin í þennan hóp.  

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í á fimmtudag. Hægt er að panta áskrift hér.

Mynd: KSÍ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.