Grunnskóli Reyðarfjarðar í úrslitum Skólahreysti í kvöld

Lið Grunnskóla Reyðarfjarðar mætir til leiks í úrslitum Skólahreysti í Laugadalshöll í kvöld. Þetta er í fyrsta skipti sem liðið kemst í úrslitin en liðsfólkið er vel undirbúið eftir að hafa æft fyrir stóru stundina í allan vetur.

„Það er frábær stemming í hópnum. Krakkarnir flugu suður í morgun ásamt tveimur kennurum og eru búin að koma sér vel fyrir í borginni.

Síðan er stuðningsmannalið á leiðinni. Það er ekki fjölmennt en fjörugt og ætlar að verða fyrirferðamikið. Við auglýstum í gær eftir trommum og fengum þær – Reyðfirðingar standa saman þegar á reynir“ segir Guðlaug Árnadóttir, aðstoðarskólastjóri.

Liðið skipa þau Auður Rós Þormóðsdóttir, Bragi Halldór Hólmgrímsson, Ólafur Jónsson og Perla Sól Sverrisdóttir en varamenn eru Ásdís Iða Hinriksdóttir og Kjartan Mar Garki Ketilsson. Með þeim eru íþróttakennarinn Anna María Skrodzka Peta og Lísa Björk Bragadóttir, umsjónarkennari 10. bekkjar.

Reyðfirðingar tryggðu sér sæti í úrslitunum í fyrsta sinn með að vinna austfirsku forkeppnina þar sem skólinn fékk 48 stig. Góður undirbúningur er forsenda árangursins.

„Þau haf hist vikulega í allan vetur undir stjórn íþróttakennarans. Skólahreysti er valáfangi á unglingastigi. Okkur finnst markvisst utanumhald og þjálfun skila sér en síðan eru þetta duglegir íþróttakrakkar.“

Bleiki liturinn var áberandi hjá Reyðfirðingum í forkeppninni og verður það aftur í kvöld, meðal annars með bleikum pardusum í stúkunni. „Okkur var úthlutað þessum lit í fyrra og við óskuðum eftir að fá að halda honum í ár því við vorum búnir að koma okkur upp búnaði. Þess utan er bleikur fallegur litur.“

Keppnin hefst klukkan 20:00 í kvöld og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Lið Grunnskóla Reyðarfjarðar fagnar sigri í forkeppninni. Mynd: Skólahreysti

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.