Gerist ekki betra en verða meistari með systur sinni

Systurnar Helena Kristín og Heiða Elísabet Gunnarsdætur voru báðar í lykilhlutverkum í liði Þróttar sem varð Íslandsmeistari í blaki kvenna í gærkvöldi.

„Það er ólýsanlegt að verða Íslandsmeistari með litlu systur. Hún var kjúklingur þegar við spiluðum síðast saman sem var í Þakkagjörðarhátíðarfríi 2014 en nú er hún einn af bestu leikmönnunum í meistaraflokki,“ segir Helena Kristín.

Hún var í liði Þróttar sem varð Íslandsmeistari 2011 en fór í kjölfarið út til Bandaríkjanna í nám á styrk út af blakinu. Helena snéri svo heim eftir áramótin. „Ég er í öðru hlutverki nú, ég kom inn í liðið sem ungi leikmaðurinn þegar aðrar voru á toppnum. Þetta er samt sama tilfinningin.“

Helena er fædd árið 1992 en Heiða Elísabet er átta árum yngri. Hún hefur tekið miklum framförum í vetur og var einn af bestu leikmönnum liðsins í úrslitakeppninni. „Það er eins og hún segir, þetta gerist ekki betra,“ segir Heiða.

Meistaratitillinn var tryggður með 3-0 sigri á Aftureldingu sem átti aldrei roð við Þrótti í lokaleiknum. „Þær voru með bakið upp við vegginn og það sást því þær gerðu mistök,“ segir Heiða.

„Við komum mjög öruggar til leiks, vorum ákveðnar í að klára þetta hér, vera ekki með neitt stress og njóta leiksins,“ bætir Helena við.

Hún vill lítið gefa út á þessari stundu hvort hún verði áfram með liðinu. „Nú skulum við fagna og sjá svo til.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar