Fyrsta karatemót Breiðdælinga

Tíu krakkar kepptu um síðustu helgi undir merkjum Ungmennafélagsins Hrafnkels Freysgoða í Breiðdal á Íslandsmóti barna- og unglinga í karate. Þetta er í fyrsta sinn sem iðkendur félagsins keppa á landsvísu en karate hefur verið iðkað hjá félaginu í á annað ár.

„Þetta er áfangi sem vakti mikla og jákvæða athygli fyrir sunnan,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, karateþjálfari hjá Hrafnkeli Freysgoða.

Tíu krakkar á aldrinum 8-13 ára tóku þátt í mótinu sem haldið var í Smáranum í Kópavogi á vegum Breiðabliks. Keppt var í kata, þar sem iðkendur sýna karateæfingar án þess að glíma við andstæðing.

„Það var mikils virði að fara suður. Það þjappar hópnum saman og gefur krökkunum markmið til að vinna að sem aftur hvetur þau áfram. Þótt aldursbilið sé breitt þá er hópurinn afar samheldinn og vakti athygli fyrir góðan liðsanda og framkomu.

Nálgun okkar í starfinu hjá Hrafnkeli Freysgoða er ekki á afreksstarf til að vinna verðlaun heldur að byggja krakkana upp þannig þau þroskist í gegnum íþróttina. Þess vegna skiptir máli að sýna sig og sjá aðra.

Þau sjá líka möguleika í íþróttinni, aðra daga hafa þau ekki aðrar fyrirmyndir en mig. Það var gaman að sjá þau fylgjast með öðrum krökkum sem komnir eru lengra og út frá því kvikna spurningar um hvað hver sé búinn að æfa lengi eða hvað þurfi að gera til að geta gert ákveðna æfingu. Svarið er oftast að halda áfram að æfa,“ segir María Helga.

Karate hefur verið í boði á Breiðdalsvík síðan haustið 2021. „Hér æfa alls 16 krakkar, sem kallast gott í ekki stærra byggðarlagi. Ég held við séum með 40% krakkanna í byggðarlaginu og það er taumlaus gleði á æfingum.“

Hópnum að austan er ekki síst fagnað fyrir þær sakir að utan höfuðborgarsvæðisins er íþróttin aðeins stunduð á Akureyri. „Það eru allir í karatestarfinu glaðir að sjá sjá nýtt félag.“

Æfingum á vorönn lýkur í lok maí þegar iðkendur spreyta sig á næsta belti. Félagið stefnur síðan á að halda úti æfingum í sumar. „Það er öllum velkomið að koma og prófa hjá okkur.“

Mynd: UMF Hrafnkell Freysgoði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.