Fyrirliðinn: Viljum hafa spennu í þessu

blak_hk_throtturn_ymir_throtturr_0122_web.jpgKristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Þróttar í blaki, viðurkennir að liðið stytti hvorki sér né áhorfendum leið í leikjum sínum. Liðið tryggði sér í dag deildarmeistaratitilinn eftir sigur á HK í oddahrinu.

 

„Við erum ekkert að flýta okkur að klára leikina. Við viljum hafa spennu í þeim,“ sagði Kristín í samtali við Agl.is eftir leikinn í Digranesi í dag.

Í oddahrinunni komst HK í 8-3 en Þróttur snéri því við. „Það þurftu 1-2 að stíga upp til að rífa okkur hinar með. Þegar við fórum að pressa brotnaði HK liðið. Við urðum líka að deila boltanum vel, það voru veikindi í liðinu og því ekki allir leikmenn upp á sitt besta.“

HK virtist ganga betur en í bikarúrslitaleiknum um seinustu helgi að loka á besta leikmann Þróttar, Miglenu Apostolovu. Kristín segir samt að það hafi engu skipt.

„Það þýðir ekkert að loka á Miglenu. Hún er svo klók að hún kemst alltaf í gegn. Við reyndum að spila meira upp á miðjuna heldur en um daginn og það gekk ágætlega.“

Sigurinn þýðir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni sem er framundan. Kristín segir það skipta miklu máli. „Við erum með langstærsta stuðningshóp landsins. Ef til oddaleiks kemur í Neskaupstað höfum við áhorfendur þar með okkur og þeir eru okkur sem sjöundi maður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.