Fótbolti: Vona að við verðum bara tveimur stigum frá Leikni eftir leik

Fjarðabyggð hefur leikið þrjá leiki í röð og náð þar tveimur sigrum í annarri deild karla í knattspyrnu. Það hefur skilað liðinu upp í fimmta sæti deildarinnar. Í kvöld mætir það toppliði Leiknis í Austfjarðaslag.

„Við hlökkum til að mæta til leiks. Bæði lið hafa byrjað sumarið vel og þetta verður vonandi góður leikur,“ segir Dragan Stojanovic, þjálfari Fjarðabyggðar.

Í lið Fjarðabyggðar vantar í kvöld Marínó Mána Atlason, sem er meiddur og Hákon Þór Sófusson sem er nýkominn aftur til félagsins er ekki heldur tiltækur. Aðrir eru klárir í slaginn, þeirra á meðal varnartengilliðurinn Júlíus Óli Stefánsson sem kom frá Selfossi í byrjun mánaðarins og leikur með Fjarðabyggð í mánuð.

Leiknir hefur farið vel af stað í sumar og er í efsta sæti deildarinnar eftir 10 umferðir með 21 stig en Fjarðabyggð er í því fimmta með sextán. Eftir leikinn í kvöld er Íslandsmótið hálfnað.

„Það segir sig sjálft að Leiknisliðið er mjög sterkt fyrst það er í efsta sæti. Það er með sterka útlendinga og fimm stigum meira en við. Ég vona þó að eftir kvöldið verðum við bara tveimur stigum á eftir þeim. Við munum gera allt til þess.“

Ég tel okkur vera með gott lið. Blandan í hópnum milli ungra og efnilegra leikmanna sem fengið hafa tækifæri í sumar og flottra erlendra leikmanna er góð. Það hefur verið stígandi í okkar leik.

Deildin er mjög jöfn. Allir geta unnið alla og ekki hægt að reikna með neinu fyrirfram. Markmið okkar er að gera betur en í fyrra og við leggjum okkur alla fram til þess,“ segir Dragan.

Ekki eru bara þrjú stig í húfi í kvöld heldur líka stolt í nágrannaslag. „Það er yfirleitt jákvæð og flott spenna milli þessara liða þegar þau spila. Ég vona að við náum að klára leikinn í kvöld,“ segir Dragan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.