Orkumálinn 2024

Fótbolti: Tvær að austan á leið á EM

Tveir leikmenn uppaldir hjá austfirskum liðum voru um helgina valdir í íslenska kvennalandsliðið sem tekur þátt í Evrópumeistaramótinu á Englandi í sumar.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir spilaði upp í gegnum yngri flokka Hattar þótt aldrei kæmi til þess að hún spilaði leik með meistaraflokki. Það gerði hún fyrir Völsung þar sem fjölskylda hennar bjó um tíma. Eftir tvö sumur á Húsavík skipti Áslaug munda yfir til Breiðabliks þaðan sem hún hefur verið síðar. Hún á að baki fimm landsleiki.

Telma Ívarsdóttir er alinn upp í Neskaupstað. Fyrsta meistaraflokksleikinn lék hún 15 ára gömul fyrir Fjarðabyggð/Leikni. Frægt er að hún spilaði fyrstu leikina sem útileikmaður og skoraði meðal annars mark áður en hún færði sig síðsumars 2014 í markið. Hún spilaði með Fjarðabyggð/Leikni tvö sumur áður en hún hélt suður og samdi við Breiðablik. Telma á að baki einn landsleik.

Austfirsku kvennaliðin spiluðu annars bæði í deildakeppninni um helgina. Fjarðabygg/Höttur/Leiknir gerði 2-2 jafntefli við Tindastól í Lengjudeildinni. Yolanda Bonnin kom FHL yfir á tólftu mínútu en heimaliðið jafnaði eftir rúmlega hálftíma leik og komst yfir eftir tæpar tíu mínútur í seinni hálfleik. Ainoa Plaza jafnaði þegar níu mínútur voru eftir. Eftir leikinn er liðið í fimmta sæti með 11 stig.

Einherji tapaði 0-2 heima fyrir ÍA í gær. Mörkin komu hvort í sínum hálfleik. Einherji er enn án stiga.

Telma með Breiðabliki í bikarleik gegn Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í maí. Mynd: Chris Colombo

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.