Fótbolti: Höttur sló Fjarðabyggð út úr bikarnum – Myndir

Höttur hafði betur gegn Fjarðabyggð í fyrstu umferð bikarkeppni karla í knattspyrnu um helgina og Einherji sló Sindra út eftir framlengingu.

Það var Marteinn Gauti Kárason sem skoraði eina mark leiksins á Fellavelli á föstudagskvöld. Boltinn barst út til Marteins Gauta í teignum vinstra megin og hann skoraði með góðu skoti í hornið niðri fjær.

Fyrri hálfleikur var fremur daufur en Höttur hafði tök á leiknum í seinni hálfleik og skapaði sér þó nokkur úrvalsfæri. Sóknarmenn liðsins voru hins vegar klaufskir uppi við markið og lúðruðu boltanum til að mynda nokkrum sinnum yfir úr góðum færum.

Ekki enn fullskipað

Bæði lið voru að reyna nýja leikmenn og var Daníel Steinar Kjartansson sprækur á hægri kantinum hjá Hetti en hjá Fjarðabyggð léku þeir Mate Coric, Aleksandar Stojkovic og Milan Stavric sinn fyrsta leik.

Bæði lið eiga leikmenn inni, Fjarðabyggð bíður eftir leikheimild fyrir markvörðinn Milos Peric og miðvörðinn Milos Vasiljevic en báðir léku með liðinu í fyrra. Mikael Natan Róbertsson, sem vanari er að spila sem bakvörður, stóð í markinu í staðinn og gerði það ágætlega.

Þá bíður Höttur eftir dvalarleyfi fyrir serbneskan varnartengillið. Tveir spænskir sóknarmenn, annar þeirra Ignacio Martinez sem lék með liðinu í fyrra, eru væntanlegir um það leyti sem Íslandsmótið hefst í byrjun maí. Tilkoma þeirra ætti að verða styrkur fyrir Hattarliðið en sóknarmönnum þess voru mislagðir fætur upp við markið á föstudag.

Mikilvægara að vinna eftir því sem nær dregur Íslandsmóti

„Mér fannst við spila mjög vel, við hefðum getað skorað fleiri mörk en vorum ekki nógu einbeittir fyrir framan markið,“ sagði Nenad Zivanovic, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Liðið tapaði öllum leikjum sínum í Lengjubikarnum og því var mikilvægt að vinna bikarleikinn. „Ég hef ekki miklar áhyggjur af Lengjubikarnum en að vinna er vani og eftir því sem nær dregur Íslandsmótinu er mikilvægara að vinna.

Ég veit að Fjarðabyggð var ekki með sitt besta lið í kvöld, þar voru líka nokkrir nýir leikmenn sem eiga eftir að venjast íslensku loftslagi og fótboltanum. Við vorum líka með nokkur ný andlit, mér fannst Daníel Steinar skara fram úr í okkar liði í kvöld en ég var líka mjög ánægður með okkar ungu leikmenn.

Við eigum eftir að fá þrjá leikmenn í viðbót og við verðum með góða blöndu erlendra leikmanna og ungra heimamanna í sumar. Það er mikilvægt upp á framtíð félagsins.“

Bjóst við betra

Hljóðið var eðlilega þyngra í Dragan Stojanovic, þjálfara Fjarðabyggðar. „Mér fannst leikur okkar allt í lagi en bjóst við værum betri. Við vörðumst ágætlega en héldum boltanum ekki nógu vel. Oft komumst við í ágætar sóknir en vantaði síðustu sendinguna. Við vinnum ekki án hennar.“

Hópurinn var þunnskipaður hjá Fjarðabyggð, aðeins fjórtán leikmenn á skýrslu. Liðið var í fallbaráttu í fyrra, líkt og Höttur, en bjargaði sér á endasprettinum.

„Mér sýnist stefna aftur í erfitt sumar, við erum með jafnvel færri leikmenn, en ég við erum bjartsýnir og jákvæðir og ég held við eigum eftir að gera betri hluti. Ég var sæmilega sáttur við nýju leikmennina, þeir komu bara til okkar fyrir viku síðan og þurfa tíma til að komast inn í hópinn.“

Einherji kláraði Sindra manni færri

Í hinum leik umferðarinnar á Austurlandi heimsótti Einherji Sindra á Höfn. Todor Hristov skoraði tvö mörk fyrir Einherja á fyrstu 20 mínútum leiksins en Kristinn Snjólfsson svaraði strax fyrir Sindra. Hann skoraði síðan jöfnunarmarkið tíu mínútum fyrir leikslok. Því varð að framlengja leikinn en í uppbótartíma venjulegs leiktíma fékk Zhivko Dinev, leikmaður Einherja, sitt annað gula spjald og þar með brottvísun.

Þrátt fyrir að Einherjaliðið væri manni færri í framlengingunni skoraði liðið þrisvar, fyrst skoraði Jökull Steinn Ólafsson og svo Númi Kárason tvisvar. Báðir eru nýir í liði Einherja, Númi kom frá Þór Akureyri en Jökull Steinn frá Fjallabyggð en hann lék eitt sumar með Hetti.

Önnur umferð verður leikin um næstu helgi, Höttur og Huginn mætast á föstudagskvöld en Einherji og Leiknir á laugardag. Báðir leikirnir fara fram á Fellavelli.

Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0003 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0017 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0022 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0025 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0031 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0035 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0045 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0048 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0051 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0059 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0065 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0067 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0069 Web
Fotbolti Hottur Kff April18 Bikar 0075 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar