Fótbolti: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir enn í baráttu um að komast upp

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir heldur sér enn í baráttunni um að komast upp í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu eftir öruggan sigur á Grindavík um helgina. KFA vann mikilvægan sigur í fallbaráttu annarrar deildar karla.

FHL vann Grindavík 3-0 í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Ainhoa Plaza kom Austfjarðaliðinu yfir um miðjan fyrri hálfleik en í seinni hálfleik bætti þær Heide Giles og Yolanda Bonnin við mörk.

FHL er nú í fjórða sæti með 25 stig úr 13 leikjum, líkt og HK og Tindastóll sem eru þar fyrir ofan. Fjögur stig eru upp í HK sem er í öðru sætinu. FH er hins vegar í efsta sætinu með 32 stig og leik til góða gegn Víkingi sem er í fimmta sæti, stigi frá FHL.

Í annarri deild kvenna vann Einherji Hamar í Hveragerði 0-1. Yoana Peralta skoraði markið eftir klukkustundar leik. Einherji er í níunda sæti með níu stig úr níu leikjum.

Í annarri deild karla náðu Austfjarðaliðin bæði í stig. KFA vann Ægi á heimavelli 4-1. Liðin byrjuðu á að skiptast á sjálfsmörkum áður en Zvonomir Blaic, sem áður hafði slysast til að jafna fyrir Ægi, kom KFA yfir á loka mínútu fyrri hálfleiks. Abdul Karim bætti síðan við tveimur mörkum í seinni hálfleik.

Höttur/Huginn sótt eitt stig til Ólafsvíkur með jafntefli við Víking. Stefán Ómar Magnússon jafnaði leikinn fyrir austanliðið á 69. mínútu eftir að heimamenn komust yfir skömmu eftir leikhlé.

KFA er feti framar en hin liðin í neðri hluta deildarinnar, er í 6. sæti með 18 stig. Liðin í 7. – 10. sæti eru með 15-16 stig, Höttur með 15 stig í níunda sæti. Reynir Sandgerði og Magni, sem eru í neðstu sætunum, eru með 10 og 9 stig en unnu bæði sína leiki.

Einherji er áfram taplaus í E riðli fjórðu deildar karla, vann Spyrni á Fellavelli á föstudagskvöld 3-0. Maxim Iurcu, Stefan Balev og Alejandro Barce skoruðu mörkin. Einherja vantar nú eitt stig til að vinna riðilinn en tveir leikir eru eftir.

Hamrarnir hafa helst elt Vopnfirðinga en náðu aðeins jafntefli á heimavelli gegn baráttuglöðu liði Boltafélags Norðfjarðar. Hamrarnir komust í 2-0 áður en Ólafur Hallgrímsson minnkaði muninn um miðjan fyrri hálfleik. Hamrarnir bættu þriðja markinu við fyrir leikhlé en BN jafnaði í seinni hálfleik með mörkum Freysteins Bjarnasonar og Filip Sakaluk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.