Fótbolti: Einherji vann fjórðu deildina

Einherji er deildarmeistari í fjórðu deild karla eftir 2-1 sigur á Árbæ í úrslitaleik um helgina. Linli Tu, leikmaður Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis varð markadrottning Lengjudeildar kvenna.

Fimm af sex austfirskum knattspyrnuliðum luku leiktíð sinni um helgina en aðeins Einherji í annarri deild kvenna á leik um næstu helgi.

Karlaliðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn í fjórðu deild á laugardag eftir 2-1 sigur á Árbæ í úrslitaleik sem leikinn var á Sauðárkróki. Maxim Iurcu kom Einherja yfir á 34. mínútu en Serghei Diulgher fékk rautt spjald á 48. mínútu og tíu mínútum fyrir leikslok jafnaði Árbæ. Það var hins vegar Carlos Javier sem tryggði Einherja sigur á 95. mínútu með skoti lengst utan af velli.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir lauk tímabilinu á jafntefli við HK á útivelli á föstudagskvöld. Linli Tu kom FHL yfir á 51. mínútu. Hún skoraði sextán mörk í sumar og varð markahæst í deildinni. Halldóra Birta Sigfúsdóttir fékk hins vegar sitt annað gula spjald þremur mínútum síðra og HK jafnaði á fjórðu mínútu uppbótartíma. Austfjarðaliðið endaði í fimmta sæti deildarinnar, sem verður að teljast fínn árangur miðað við að liðið var nýtt í deildinni.

Höttur/Huginn endaði líka í fimmta sæti annarrar deildar karla en liðið var líka nýtt í þeirri deild. Síðasti leikurinn var 3-2 sigur gegn Fjallabyggð á heimavelli. Björgvin Stefán Pétursson kom Hetti/Huginn yfir á 10. mínútu en gestirnir jöfnuðu fjórum mínútum síðar. Matheus skoraði á annarri mínútu seinni hálfleiks áður en Björgvin Stefán bætti við öðru marki sínu á 56. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn um miðjan seinni hálfleik.

Fyrir leikinn skrifaði Brynjar Árnason undir samning um að þjálfa Hattar/Hugins liðið áfram en hann var að ljúka sínu öðru sumri með það.

Það var frábær seinni helmingur móts sem skilaði Hetti/Huginn upp í miðja deild. Á sama tíma hefur ekkert gengið upp hjá Knattspyrnufélagi Austfjarða. Liðið tapaði síðasta leiknum í Sandgerði gegn Reyni á laugardag, 2-0 og endaði í 10. sæti, tveimur stigum fyrir ofan fallliðin Reyni og Magna. Mörkin komu rétt fyrri og eftir leikhlé.

Tíðindaverðast úr leiknum var trúlega að leikurinn var leikinn klukkan átta um kvöldið, sex tímum á eftir áætlun þar sem morgunflugi frá Egilsstöðum var fellt niður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.