Orkumálinn 2024

Fótbolti: Einherji kominn með annan fótinn í þriðju deildina

Lið Einherja í fjórðu deild karla í knattspyrnu er komið með annan fótinn í þriðju deild að ári eftir 1-5 stórsigur á Ými í fyrri leik liðanna í undanúrslitum. Knattspyrnufélag Austfjarða er öruggt með áframhaldandi veru sína í annarri deild.

Einherji mætti Siglingaklúbbnum Ými í Kópavogi um helgina og fór þaðan með 1-5 stórsigur. Stefan Balev og Ruben Menendez skoruðu mörk Vopnfirðinga í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik bætti Alejandro Barce við tveimur mörkum auk þess sem Maxim Iurcu skoraði eitt.

Liðin mætast aftur á Vopnafirði á miðvikudag. Það lið sem hefur betur í tveimur leikjum samanlagt spilar í þriðju deildinni að ári. Í hinum undanúrslitaleiknum hafði Árbær betur gegn Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ 1-2. Sigurmarkið var sjálfsmark á 96. mínútu.

KFA tryggði áframhaldandi veru sína í annarri deild þrátt fyrir 0-2 tap gegn Víkingi úr Ólafsvík um helgina. Mörk gestanna komu annars vegar þegar tvær mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik, hins vegar þegar tvær mínútur voru eftir af honum.

Ósigur Reynis Sandgerði gegn Fjallabyggð gerði það að verkum að liðið getur ekki lengur náð KFA að stigum og er þar með fallið ásamt Magna. Reynir tekur á móti KFA í lokaumferðinni um næstu helgi.

Höttur/Huginn tapaði 0-3 fyrir toppliði Njarðvíkur. Liðið tekur á móti Fjallabyggð eftir viku í úrslitaleik um sjötta sætið. Örlítil lukka gæti þó skotið Hetti/Huginn upp fyrir ÍR í 5. sæti á markahlutfalli meðan stök ógæfa gæti sent það niður í 9. sæti.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir lék sinn síðasta heimaleik í sumar í Lengjudeild kvenna þegar liðið tapaði gegn Víkingi úr Reykjavík 1-3. Katrín Edda Jónsdóttir minnkaði muninn í 1-2 á 48. mínútu. Þar með er ljóst að liðið endar í 5. sæti, sem teljast verður gott miðað við að það er nýtt í deildinni. FHL spilar gegn HK í lokaumferðinni.

Lið Einherja í annarri deild kvenna er enn ósigrað í umspili liðanna í neðri helmingi deildarinnar. Um helgina gerði liðið 1-1 jafntefli við Sindra. Yoana Peralta kom Vopnfirðingum yfir á 11. mínútu. Einherji hefur nú tekið forustuna af þessum fimm liðum en situr yfir um næstu helgi og spilar síðasta leikinn eftir tvær vikur gegn ÍH á Vopnafirði.

Úr leik FHL og Víkings í Lengjudeild kvenna. Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.