Fjórir af bestu vélsleðaköppum heims kepptu í Stafdal um liðna helgi

Lítill vafi getur leikið á að vegur og virðing snjókrosskeppna hér á Íslandi fer mjög vaxandi vel út fyrir steina landsins því fjórir af þeim allra bestu í sportinu tókust á við þá bestu hérlendis á Íslandsmeistaramótinu um liðna helgi í Stafdal.

Það góð reynsla fyrir íslenska keppendur að takast á við atvinnumenn í faginu og það var raunin á fimmta og síðasta snjókrossmótinu sem fram fór í sérhannaðri braut fyrir ofan skíðasvæðið í Stafdal um helgina. Kapparnir fjórir, allir frá Bandaríkjunum, komu gagngert til að keppa og þó ekki sé einsdæmi að erlendir keppendur taki þátt hérlendis þá er þetta mikil lyftistöng fyrir íþróttina hérlendis að sögn Steinþórs Guðna Stefánssonar, úr akstursíþróttaklúbbnum Start hér á Austurlandi.

„Þetta gekk hundrað prósent eins og í sögu. Veðrið fyrsta flokks, fleiri keppendur í öllum aldursflokkum en verið hefur nokkru sinni áður og svo þessir bandarísku keppendur sem þátt tóku, eru atvinnumenn í sportinu og meðal þeirra allra bestu í snjókrossi á heimsvísu. Það er ótrúlega gaman að fá slíka menn enda röðuðu þeir sér í þrjú efstu sætin í Pro-Open flokknum en Bjarki okkar Sigurðsson, veitti þeim ágæta keppni.“

Aðspurður um gengi Austfirðinga sérstaklega á þeim snjókrossmótum sem fram hafa farið í vetur segir Steinþór að þeir séu fáir sem taka þátt að ráði en útlit fyrir að það gæti breyst á komandi árum því fjölgunin í sportinu í öllum aldurshópum sem keppt var í er töluverð á milli ára.

Íslandsmeistaratitilinn í unglingaflokki tók Sigurður Bjarnason, Frímann Geir Ingólfsson vann Sport-flokkinn, Alex Þór Einarsson hampaði titlinum í Pro-lite og í Pro-open flokknum sigraði Baldvin Gunnarsson.

Myndir: Katla Mjöll Gestsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.