Fjórða Grettisbelti Ásmundar í röð

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, glímumaður frá Reyðarfirði, vann Íslandsglímuna í fjórða sinn í röð um helgina en þar er keppt um Grettisbeltið. Hann segist hafa þurft að hafa meira fyrir sigrinum nú en oft áður.

Ásmundur Hálfdán lagði alla sína andstæðinga og fékk fjóra vinninga. Í öðru sæti varð Hjörtur Elí Steindórsson, einnig frá Reyðarfirði eftir úrslitaglímu um silfrið við Vestfirðinginn Sigurð Óla Rúnarsson. Þeir fengu báðir 2,5 vinninga en þeir gerðu jafnglími í fyrstu umferð.

„Þetta var nokkuð jöfn barátta milli okkar þriggja efstu. Ég hafði betur en þurfti að hafa fyrir því, að minnsta kosti meira en í fyrra.

Ég var búinn að fella Sigurð Óla nokkrum sinnum en hélt ekki jafnvægi þannig ég fékk ekki dæmdan sigur,“ segir Ásmundur Hálfdán um glímurnar.

„Það er alltaf ákveðinn léttir þegar sigurinn er í höfn, sérstaklega þegar maður er að verja titil. Maður gengur inn með skotmark á bakinu því aðrir vilja ná titlinum. Núna get ég verið rólegur eitt ár í viðbót.“

Ásmundur hefur verið fremsti glímumaður landsins undanfarin fjögur ár og unnið öll mót vetrarins, sem af er. Næst á dagskrá er Evrópumótið í keltneskum fangbrögðum þar sem keppt verður í glímu, backhold og gouren en það verður haldið í Reykjanesbæ í lok apríl.

Í kvennaflokki náði Marta Lovísa Kjartansdóttir bestum árangri Austfirðinga þar sem hún varð í þriðja sæti. Kristín Embla Guðjónsdóttir og Fanney Ösp Guðjónsdóttir deildu fjórða sætinu eftir jafnglími.

Mynd: Glímusamband Íslands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar