Orkumálinn 2024

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. á leið í úrslitakeppni

Í gær lék Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. mikilvægan leik í 2. deild kvenna þar sem liðið gat með sigri tryggt sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar um að leika í 1. deild að ári.

Liðið mætti KM, Knattspyrnufélaginu Miðbæ, frá Reykjavík og vann stórsigur 24-0, sem er stærsti sigur í sögu félagsins. Alexandra Tomas og Freyja Karín Þorvarðardóttir skoruðu báðar sex mörk en þær eru markahæstar í deildinni, Freyja með 18 mörk og Alexandra 17. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. á aðeins einn leik eftir í deildinni en hann er gegn Einherja. Sá leikur getur skipt máli í því hvaða lið Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. fær í úrslitakeppninni.

Fleiri austfirsk lið léku um helgina. Á laugardaginn lék Leiknir F. gegn Reyni Sandgerði og Fjarðabyggð gegn KV í 2. deild karla. Leiknir F. tapaði sínum leik 4-1 og Fjarðabyggð tapaði einnig 2-0 þar sem Isaac Owusu Afriyie fékk rautt spjald. Fjarðabyggð situr á botni deildarinnar með fimm stig eftir fimmtán leiki og níu stig eru upp í Leikni F. í tíunda sæti. Það er því fátt sem virðist geta bjargað Fjarðabyggð í síðustu sjö leikjunum.

Í þriðju deild karla lék Einherji á útivelli við Elliða í spennuþrungnum leik. Staðan í hálfleik var 1-1 þar sem Alejandro Barce Lechuga skoraði mark Einherja en Einherji var manni færri frá 29. mínútu eftir að Cristofer Minano fékk beint rautt spjald. Á 76. mínútu kom Björn Andri Ingólfsson Einherja í 2-1 forystu. Einherji virtist ætla að sigla stigunum þremur heim en á lokamínútu leiksins jafnaði Jónas Breki Svavarsson fyrir Elliða og í uppbótatíma bætti Benedikt Daríus Garðarsson við marki fyrir Elliða og úr varð að Einherji tapaði leiknum 3-2. Úrslitin voru dýrkeypt fyrir Einherja sem sitja á botni þriðju deildar með tíu stig eftir fimmtán umferðir og þrjú stig upp í öruggt sæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.