Orkumálinn 2024

Fimmtán ára skoraði tvö á Vilhjálmsvelli

Lið Hattar/Hugins hefur farið fremur illa af stað í upphafi móts og sat fyrir helgina á botni 3. deildar karla í knattspyrnu. Liðið náði sér hins vegar í mikilvæg stig þegar liðið hafði 3-1 sigur á Álftnesingum á sunnudag. Þorlákur Breki Þ. Baxter fór fyrir heimamönnum og skoraði tvö mörk, en hann er aðeins 15 ára gamall.

Breki var að vonum ánægður með sigurinn og að hafa brotið ísinn fyrir meistaraflokk. „Mér leið bara ágætlega á vellinum, þetta var góður leikur hjá liðinu og við héldum boltanum sérstaklega vel. Það var svo geggjað að ná að skora fyrsta markið. Það kom góð sending inn fyrir á Halldór (Bjarka Guðmundsson), sem átti toppleik, og hann kom skoti á markið. Ég potaði honum svo bara yfir línuna,“ segir hann hæversklega, en þeir sem fylgjast með knattspyrnu vita jú að það er ansi mikilvægt, þetta að pota boltanum yfir línuna.

Með þessu marki náðu heimamenn að jafna leikinn eftir að gestirnir höfðu komist yfir um miðjan fyrri hálfleik. Breki skoraði svo annað mark snemma í síðari hálfleik áður en Steinar Aron Magnússon tryggði sigurinn endanlega með þriðja marki heimamanna.


Hefur leikið báða sigurleikina

Breki hefur komið nokkuð við sögu í liði Hattar/Hugins nú í upphafi tímabils, kom meðal annars inn á í bikarleik gegn úrvalsdeildarliði Gróttu þar sem hann stóð sig með prýði. Um helgina var hann síðan í byrjunarliði í þriðja sinn á tímabilinu og glöggir kunna að hafa tekið eftir því að þar á meðal eru þeir tveir leikir sem liðið hefur unnið í fyrstu átta umferðunum. Hann lét þó ekki blaðamann leiða sig út í neina vitleysu þegar hann var spurður út í hvort í því fælust ekki skilaboð til þjálfara liðsins. „Nei, það held ég alls ekki.“

Eins og fyrr segir er Breki ekki nema 15 ára gamall og það síðan í mars. Það er ekki algengt að sjá pilta á þessum aldri gera sig svo gildandi í Íslandsmóti í meistaraflokki. Hann segir það ákveðna áskorun að takast á við meistaraflokksleiki. „Þetta er erfitt en ég verð bara að þroskast hratt í þessu og ég er mjög ánægður með að hafa fengið þessi verkefni hjá Viðari.“


Á framtíðina fyrir sér

Viðar Jónsson, þjálfari Hattar/Hugins segir að það sem gerir Breka sérstaklega spennandi séu hversu ófeiminn hann sé að takast á við áskoranir. „Hann er ekki hræddur við neitt, fullur af sjálfstrausti og hæfileikum. Hann nýtur augnabliksins, gefur allt í þau verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur og hefur hæfileika til að ná langt. Að mínu mati ætti 3. deild einmitt að vera vettvangur fyrir unga leikmenn að fá séns og Breki hefur sannarlega nýtt þann séns afar vel.“

Hann segir það þó alltaf áskorun að vinna með ungum leikmönnum og meta hvenær og hvernig sé best að nýta hæfileika þeirra. Það eigi líka við um Breka. „Helsta áskorunin er að halda honum, og raunar öðrum ungum leikmönnum, við efnið og láta þá taka fleiri lítil skref í rétta átt. Breki á sannarlega framtíðina fyrir sér ef hann heldur rétt á spilunum. Það hefur verið gaman að fylgjast með honum og það er ekkert sem toppar það að gefa ungum leikmönnum séns og sjá þá grípa tækifærið.“


Valinn í yngri landslið

Breki hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands um nokkuð skeið, hann hefur æft reglulega með U15 landsliðinu og fór með þeim út til Póllands í vetur og lék þrjá leiki, gegn Bandaríkjunum, Rússlandi og Póllandi. „Það var mjög góð reynsla að fara út og spila gegn þessum liðum. Síðan er ég núna að stíga upp í U16 og hlakka mikið til þess.“

Markmið Breka eru skýr um framhaldið og hann stefnir lengra í boltanum. „Markmiðið er að eiga gott sumar og safna mörgum stigum með meistaraflokki. Í framhaldi af því kannski að vekja athygli stærri liða og komast eitthvað lengra. Líka að vinna mig upp um landslið.“

Höttur/Huginn byrjaði tímabilið sem fyrr segir fremur illa en Breki segir stemminguna í liðinu góða þrátt fyrir það. „Við erum algjörlega búnir að núllstilla okkur og markmiðið er bara að ná í alla punkta sem hægt er að sækja. Þó þetta hafi byrjað brösuglega þá er hungur í okkur ennþá að ná stigum og stemmingin í hópnum er mjög góð.“

 

Þorlákur Breki Þ. Baxter. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.