Falldraugurinn kveðinn niður á Egilsstöðum

hottur_laugdaelir_web.jpgÞó að tölfræðilega sé Höttur ekki búinn að tryggja veru sína í 1. deild að ári, þarf mikið að gerast til þess að liðið endi í fallsæti eftir mikilvægan sigur á Laugdælum á Egilsstöðum. Fyrir leikinn voru liðin hlið við hlið í 7.-8. sæti deildarinnar með 8 stig.

 

Það varð snemma ljóst að við fengjum ekki að sjá besta körfuboltaleik sem leikinn hefur verið á Egilsstöðum. Jafnræði var með liðunum í fyrsta fjórðungi. Hattarmönnum gekk ekki vel að koma boltanum í körfuna, sérstaklega þegar þeir keyrðu að körfuni og gestirnir náðu áreynslulítið að halda í við heimamenn og að komast yfir með góðum kafla undir lok fjórðungsins og staðan að honum loknum 17-24. Andleysi virtist þarna vera að grafa um sig hjá byrjunarliðsmönnum Hattar og Viggó Skúlason þjálfari sá sér þann kost vænstan að senda tvo bakverði á 16 aldursári inn á. Andrés Kristleifsson, sem hefur komið töluvert við sögu hjá Hetti í vetur, og Steinar Aron Magnússon. Hlutverk þess síðarnefnda var að pressa stíft á leikstjórnanda Laugdæla, Bjarna Bjarnason og var gaman að fylgjast með rimmu þeirra þar sem ekkert var gefið eftir. Ungu strákarnir hleyptu lífi í leik heimamanna og leikurinn einkenndist af mikilli baráttu út fyrri hálfleikinn. Staðan í lok hans 45-44.

Í þriðja leikhluta sýndu Hattarmenn klærnar. Þriggja stiga skotin duttu niður auk þess sem boltinn gekk betur milli manna og náðu þeir að byggja upp smá forskot þótt Laugdælir gerðu þeim aldrei auðvelt fyrir. Höttur með 11 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Í fjórða leikhluta var allt við það sama og allt leit út fyrir nokkuð þægilegan heimasigur.  Danny Terrel stýrði leik Hattar skynsamlega og var skotklukkan nýtt til hins ítrasta. Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum var munurinn 16 stig og værð tekin að síga á áhorfendur. Þá ákváðu Hattarmenn að reyna að hleypa spennu í leikinn og með blöndu af klaufaskap og kæruleysi heimamanna gafst Laugdælum tækifæri til að gera atlögu sem þeir gripu fegins hendi og náðu að minnka muninn í 5 stig þegar hálf mínúta var eftir. En þeir komust ekki lengra og lokatölur 87-80.

Byrjunarlið Hattar er sterkt en því miður brokkgengt. Danny Terrel var jafnbestur heimamanna en Viðar Örn Hafsteinsson átti frábærar rispur og skoraði 25 stig og tók 11 fráköst. Hugh Barnett og Omar Khanani áttu góða kafla. Barnett er sterkur undir körfunni en aldurinn er farinn að segja til sín og hreyfanleikinn takmarkaður. Í liði Laugadæla var þjálfarinn Pétur Már Sigurðsson atkvæðamikill og reyndi í lokin allt til að koma sínum mönnum inn í leikinn. Þá var Sigurður Orri Hafþórsson öflugur og var stigahæstur gestanna. Góður leikmaður sem mætti að ósekju einbeita sér meira að því að spila leikinn og minna af andstæðingum og dómurum.

Dómarar leiksins, þeir Jakob Árni Ísleifsson og Halldór Geir Jensson, gáfu ekkert tilefni til húrrahrópa. Þeir slepptu ótrúlegum fjölda augljósra villna sem gerði það að verkum að lítið samræmi virtist vera í ákvörðunum þeirra. En á móti má segja að liðin geti verið fegin að ekki var flautað meira því eins og leikurinn spilaðist hefði hann sennilega mestmegnis farið fram á vítalínunni ef um flautuglaðari dómara hefði verið að ræða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.