Eysteinn: Hugmyndin um að þjálfa Hött verið rædd á hverju hausti

ImageEysteinn Hauksson, sem þjálfar knattspyrnulið Hattar í 2. deild karla á næsta ári, segist hafa horft heim síðan hann yfirgaf félagið ungur að árum. Hann er spenntur fyrir verkefninu á Egilsstöðum.

 

„Maður hefur náttúrulega alltaf gengið með þessa hugmynd í maganum, síðan maður fór suður og þetta hefur verið rætt nánast á hverju hausti, þó með misjafnlega alvarlegum hætti. Ég hef alltaf sagt í gegnum árin að ég kæmi heim þegar ég yrði 35 ára, en því seinkaði um eitt ár. Þar sem liðinu gekk ágætlega í sumar, reikna ég þó ekki með neinum málsóknum vegna þess,“ sagði Eysteinn í samtali við Agl.is.

Eysteinn er alinn upp hjá Hetti en fór þaðan um tvítugt til Keflavíkur. Þar lék hann við góðan orðstír áður en hann flutti sig yfir til Grindavíkur. Hann er orðinn 36 ára gamall og hætti að spila í fyrra.

„Ég var nánast klár í þetta á síðasta ári, þar sem ég var hættur að spila, en hart var lagt að mér að vera áfram í barna- og unglingaþjálfun í Grindavík og á endanum samþykkti ég það, enda hef ég átt einstaklega gott samstarf við Grindavík á þeim níu árum sem ég hef eytt þar. Í haust fékk ég tilboð frá nokkrum aðilum varðandi þjálfun yngri flokka en ég lét Hattarmenn og raunar alla þá sem ég ræddi við strax vita að ef ákveðin skilyrði yrðu uppfyllt fyrir austan, þá myndi ég fara þangað, sama hvað yrði uppi á borði annars staðar.“

Höttur varð í fjórða sæti í sumar, sem er besti árangur liðsins og lauk tímabilinu á 4-3 sigri á KS/Leiftri um seinustu helgi.

„Mér líst mjög vel á að taka við Hattarliðinu. Þetta er ungt og spennandi lið sem vill ná lengra í fótboltanum. Einnig eru hugmyndir stjórnarinnar háleitar en um leið byggðar á skynsamlegum grunni og það líkar mér vel.“

Eysteinn er að pakka saman í Grindavík og flytur á næstunni austir í Egilsstaði. „Við erum bara að pakka niður. Við erum með íbúð klára fyrir austan og hlökkum til að koma og mæta nýjum kafla í okkar lífi. Svo þegar dagarnir líða, sér maður fleiri og fleiri jákvæða hluti við að flytja heim. Fjölskyldur okkar eru náttúrulega þarna á staðnum og það hefur mikið að segja.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.