Eysteinn Hauks: Ég hef fengið að heyra það frá mörgum að ég sé klikkaður

eysteinn_hauks_egill_orn_bjornsson_studningsmannakvold_web.jpg
Eysteinn Hauksson, þjálfari fyrstu deildar liðs Hattar í knattspyrnu, segir það markmið sitt að koma liðinu í fremstu röð íslenskra knattspyrnuliða. Hann og leikmenn liðsins eru ákveðnir í að afsanna hrakspár þeirra sem segja að liðið fari beint niður aftur. Fimm knattspyrnuleikir verða á Austurlandi um helgina enda vertíðin að fara á fullt.

„Markmið mín eru klár: að koma Hetti í hæstu mögulegu hæðir á afrekslistum íslenskra félaga en gera það þannig að sómi sé af því,“ sagði Eysteinn á stuðningsmannakvöldi Hattar í vikunni og bætti við: „Ég hef fengið að heyra það frá mörgum að ég sé klikkaður.“

Höttur spilar í ár í fyrsta skipti í fyrstu deild. Flestir sérfræðingar spá því hins vegar að liðið falli strax aftur í haust. Liðið byggir aðallega á ungum heimamönnum en til að styrkja liðið var enski markvörðurinn Ryan Allsop fenginn frá Millwall.

Nokkuð hefur verið fjallað um mun á samkeppnisaðstöðu liða á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Þannig benti formaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar á það í grein nýverið að bara flugfargjöld félagsins kosti sex milljónir í ár. Félögin syðra bera ekki þann bagga og geta nýtt peningana til að styrkja sig með leikmönnum.

Að klífa Everest á inniskónum 
 
Sums staðar fá leikmenn laun fyrir að spila og víða er þeim bætt vinnutap. Eysteinn tók fram að leikmenn Hattar þæðu „nánast engar greiðslur.“

Hann vitnaði síðan til besta knattspyrnustjóra heims, Sir Alex Ferguson hjá Manchester United, sem sagði það að ætla að ná árangri í knattspyrnu væri svipað og ætla að klífa Mount Everest á inniskónum. 

„Þetta er þvílíkt klif á brattan allan tíman. Reksturinn er erfiður og fleira í þeim dúr. Það eru þúsund afsakanir klárar fyrir því að við förum beint niður aftur.

Hins vegar er komin ný kynslóð leikmanna sem lætur allt neikvæðnital sem vind um eyrum þjóta og ætlar sér árangur. Allt sem á að draga úr okkur máttinn er að þjappa okkur saman. Að eiga fótboltalið sem getur eitthvað á að vera eitthvað sem skiptir máli fyrir bæjarfélagið okkar.“

Forsvarsmenn Hattar báru sig vel eftir stuðningsmannakvöldið þar sem meðal annars voru æfðir söngvar fyrir sumarið. Þá voru stuðningsmönnum færðar þakkir fyrir þeirra framlag á síðustu leiktíð.

Fimm leikir um helgina
 
Höttur leikur sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu á morgun gegn Haukum og hefst hann klukkan 14:00 á Fellavelli. Hafnafjarðarliðið, undir stjórn Ólafs Jóhannessonar fyrrverandi þjálfara íslenska landsliðsins og Einherja, vann í vikunni metsigur á Snæfelli, 0-31 í bikarkeppninni. Á sama tíma vann Höttur Leikni 5-1 á Fellavelli. Höttur dróst síðan gegn Augnabliki í Kópavogi í 32ja liða úrslitum.

Nóg verður um að vera í boltanum á Austurlandi um helgina. Kvennalið Hattar tekur á móti ÍA strax eftir karlaleikinn eða klukkan 16:30. ÍA spilar einnig gegn Fjarðabyggð/Leikni á Eskifirði á sunnudag klukkan 13:00.

Á Eskifjarðarvelli tekur karlalið Fjarðabyggðar á móti Knattspyrnufélagi Vesturbæjar klukkan 14:00 í annarri deild karla. Fjarðabyggð sló Sindra í vikunni út úr bikarkeppninni 4-2 og mætir KA í næstu umferð.

Austfjarðaslagur verður í fyrstu umferð þriðju deildar karla þegar Leiknir og Huginn mætast í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 14:00 á sunnudag. Einherji hefur leik í Reykjavík gegn KH á Hlíðarenda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.