„Erum rosalega ánægð með að fá Breiðablik“

Ríkjandi bikarmeistarar kvenna í knattspyrnu, Breiðablik, kemur austur til að leika við Fjarðabyggð/Hött/Leiki í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu. Þjálfari liðsins segir spennandi en erfitt verkefni framundan.

„Við erum rosalega ánægð með að hafa fengið Breiðablik. Þú verður ekki betri nema spila við þær bestu og þótt það geti verið erfitt er mikill lærdómur fólginn í því.

Þess vegna er frábært að fá lið sem spilaði í Meistaradeildinni síðasta vetur,“ segir Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis.

Breiðablik, sem löngum hefur verið með eitt besta kvennalið landsins, varð síðasta vetur fyrst íslenskra liða til að komast inn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Mótherjar liðsins þar voru meðal annars Paris St. Germain og Real Madrid sem eru í hópi bestu liða álfunnar.

Til að ná það langt og standast atvinnuliðum snúning er mikil vinna að baki. Þess vegna er viðbúið að mundur sé á liðinu úr Kópavogi og því sem kemur austan af fjörðum og spilar deild neðar. „Við veðrum að undirbúa okkur vel og sjá hvort við getum ekki kitlað þær aðeins,“ segir Björgvin Karl.

Þrír leikmenn Breiðabliks, Telma Ívarsdóttur, Heiðdís Lillýardóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir eru allar aldar upp á Austurlandi. „Fyrir ungar stelpur er mikill fengur að sjá þetta lið. Þetta eru miklar fyrirmyndir því í hópnum eru bæði núverandi og verðandi landskonur,“ bendir Björgvin Karl á en íslenska landsliðið spilar í sumar í lokakeppni EM.

Yngri systir Áslaugar Mundu, Björg, er í leikmannahópi Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis en hún er sem stendur með íslenska U-16 ára móti í Portúgal. Þriðji og síðasti leikur mótsins var í dag gegn Austurríki en áður hafði það leikið gegn gestgjöfunum og Spáni.

Spilað verður í bikarnum dagana 27. – 29. maí. Eins og stendur er leikurinn settur á sunnudag en verið er að skoða nánari tímasetningu í samhengi við barnamót sem haldið er þann dag á Egilsstöðum. „Það yrði frábær dagur ef við gætum haft leikinn í beinu framhaldi af því.“

En áður að leiknum kemur mætir Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir fyrst liði FH í Lengjudeildinni, sem Björgvin Karl telur besta lið deildarinnar. Leikurinn hefst á hádegi á laugardag í Fjarðabyggðarhöllinni.

Mynd: Akureyri.net/Skapti Hallgrímsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.