Orkumálinn 2024

Ellefu marka leikur í Fjarðabyggð: Aldrei lent í svona leik

Ellefu mörk voru skoruð í leik Fjarðabyggðar og Kára í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag þegar liðin mættust í annarri deild karla í knattspyrnu. Fjarðabyggð skoraði sjö markanna en gestirnir fá Akranesi fjögur. Þjálfari Fjarðabyggðar segir leikinn hafa verið stórskemmtilegan en hann þurfi að fara yfir varnarleik síns liðs.

„Ég er búinn að þjálfa í meistaraflokki í 16 ár og ég hef aldrei lent í svona leik áður. Við héldum fund um leikinn í gær, eins og við gerum alltaf, en það skildi enginn alveg hvað gerðist.

Þetta var örugglega gaman fyrir áhorfendur, þeir fengu mikla skemmtun fyrir aðgangseyrinn, en þetta var kannski ekki jafn skemmtilegt fyrir mig á bekknum,“ segir Dragan Stojanovic, þjálfari Fjarðabyggðar.

Fyrsta markið kom strax á tólftu mínútu, það skoraði Nikola Kristinn Stojanovic fyrir Fjarðabyggð en gestirnir jöfnuðu úr næstu sókn. Ruben Pastor kom Fjarðabyggð yfir strax aftur áður en síðan liðu átta mínútur þar til Gonzalo Gonzalez skoraði sitt fyrsta mark í leiknum og þriðja mark Fjarðabyggðar.

„Fyrri hálfleikur var flottur, einn okkar besti í sumar og sóknarleikurinn frábær. Við töluðum síðan um það í hálfleik að skora eitt í viðbót strax eftir leikhléið til að drepa leikinn.“

Það gekk upp því Gonzalez skoraði strax á annarri mínútu seinni hálfleik og eftir sex mínútur til viðbótar skoraði Jose Romero fimmta mark Fjarðabyggðar. Héldu þá flestir að úrslitin væru ráðinn, þar á meðal Dragan. Svo var ekki.

Á kortérs kafla, sem byrjaði á 60. mínútu skoruðu gestirnir þrjú mörk og breyttu stöðunni í 5-4. Þeir hefðu meira að segja getað komist nær því markvörður Fjarðabyggðar varði annað af þeim tveimur vítum sem gestirnir fengu á þessum kafla.

Þá fór Gonzalez aftur af stað, hann kom Fjarðabyggð strax í 6-4 og skoraði síðan sitt fjórða mark í leiknum í uppbótartíma til að tryggja heimaliðinu 7-4 sigur. Spánverjinn er líka markahæstur í deildinni eftir helgina með 12 mörk.

Ekki jafn ánægður með vörnina

„Við hefðum ekki átt að lenda í vandræðum eftir að vera komnir í 5-1. Þótt það megi ekki gerast þá hendir það oft þegar lið eru komin með slíka forustu að þau slaka á. Ég var aldrei hræddur um sigur okkar, Fjarðabyggð er betra lið en Kári en einmitt þess vegna eigum við ekki að lenda í svona vandræðum.

Eins ánægður og ég er með sóknina þá er ég ekki sáttur við varnarleikinn. Það segir sig sjálft að hann var ekki í lagi. Við höfum hins vegar verið óheppnir með meiðsli, okkur vantaði fimm leikmenn í þessum leikmenn. Það er mikið í stórliðum eins og Manchester United eða City, hvað þá hjá okkur.

Af fjögurra manna varnarlínu vantaði okkur þrjá fastamenn. Síðan vorum við með nýjan Spánverja fyrir framan hana þannig þessir fimm leikmenn höfðu ekki náð að spila sig saman.“

Fjarðabyggð er eftir leikinn í sjöunda sæti með 22 stig. Mjótt er á munum í deildinni, sex stig eru frá Vestra í öðru sæti í Völsung í því níunda. Fjarðabyggð mætir Vestra á Ísafirði um næstu helgi. „Þessi deild er rugluð – á jákvæðan hátt. Ef þú vinnur tvo leiki í röð ertu kominn í toppbaráttu en ef þú tapar tveimur í röð er staðan öllu verri,“ segir Dragan.

Leiknir er í efsta sætinu og treysti frekar stöðu sína þar með 2-3 sigri á KFG í Garðabæ um helgina. Izaro Sanchez, Unnar Ari Hansson og Arek Grzelak skoruðu mörk Leiknis sem komst í 0-3.

Loksins sigur hjá Hetti/Huginn

Í þriðju deildinni vann Höttur/Huginn loksins, eftir sjö leiki í röð án sigurs, þegar Álftanes kom í heimsókn á laugardag. Guðjón Ernir Hrafnkelsson skoraði strax á fyrstu mínútu áður en fyrrum leikmaður Hattar, Kristófer Örn Kristjánsson, skoraði sjálfsmark. Eftir leikhlé skoraði Ignacio Martinez á fyrstu mínútunni áður en Brynjar Árnason kom liðinu í 4-0. Liðið er þó enn aðeins tveimur sætum frá falli.

Einherji er fimm stigum frá Hetti/Huginn og virðist á nokkuð lygnum sjó í sjötta sætinu. Eftir átta leiki í röð án taps var lok komið að því þegar liðið lá 3-0 gegn toppliði Kórdrengjanna um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.