Ekki annað í boði en kveðja erlendu leikmennina

Erlendir leikmenn austfirskra knattspyrnuliða tínast nú til sinna heimalanda þótt enn eigi eftir að spila þrjár umferðir af Íslandsmótinu. Formaður Hattar/Hugins segir félögin vart hafa efni á öðru. Þau þrýsta á Knattspyrnusamband Íslands að hætta keppni í neðri deildum.

Fjórir erlendir leikmenn þriðju deildar liðs Hattar/Hugins héldu af landi brott í byrjun vikunnar og tveir leikmenn Leiknis Fáskrúðsfirði, sem spilar í fyrstu deild, eru einnig farnir. Þá hefur verið ákveðið að erlendir leikmenn Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í annarri deild kvenna haldi heim á leið á næstu dögum.

Guðmundur Björnsson Hafþórsson, formaður Hattar/Hugins, segist hafa spurnir af því að fleiri landsbyggðarlið skoði sína stöðu þessa dagana. Hann segir tvennt hafa ráðið ferðinni hjá Huginn/Hetti. Annars vegar fjárhagurinn, hins vegar óskir leikmannanna sjálfra.

„Leikmennirnir okkar voru með samning sem búið var að framlengja til 17. október. Inni í honum voru ákveðnar vinnustundir en þeir hættu að vinna í lok september. Við leigjum líka íbúðir á sumrin sem körfuknattleiksdeildin tekur við á veturna. Við bætist að stór styrktaraðili lét okkur vita nýverið að hann myndi ekki styðja okkur áfram.

Samkvæmt núgildandi tilskipunum verður ekkert spilað fyrir 19. október. Reglur KSÍ gera ráð fyrir að síðan þurfi að æfa í viku og þá er aldrei spilað fyrr en 26. október. Mótið hefði því alltaf staðið til 10. nóvember. Þá er kominn mánuður í viðbót við kostnað og miðað við fréttir í dag þá mun hléið standa lengur.

Síðan höfðu leikmenn óskað eftir að fá að fara. Það ríkir mikil óvissa í heiminum og þeim fannst erfitt að vera hér, fjarri fjölskyldum sínum sem sumar báðu þá um að koma heim. Svo eru aðstæðurnar misjafnar. Við vorum með þrjá Spánverja sem máttu hitta fjölskyldur sínar strax en Norðmaðurinn þarf í sóttkví.“

Karlalið Hattar/Hugins er í fallbaráttu í þriðju deild en kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis getur enn komist upp um deild. Það er því stór ákvörðun að láta lykilleikmenn fara en Guðmundur segir ekki aðra kosti hafa verið í stöðunni.

„Það var ekkert annað í boði fyrir okkur til að komast af. Við drögum ekki milljón upp úr vasanum eins og ekkert sé í lok tímabils.“

Biðja um að mótinu verði hætt

Höttur/Huginn, Einherji og Fjarðabyggð hafa sent erindi á stjórn KSÍ um að hætta keppni í neðri deildunum og segir Guðmundur að fleiri landsbyggðarlið hafi sent sambærileg erindi.

Misjafnt er milli deilda og liða hve margir leikir eru eftir, en almennt eru þeir 2-3. Samkvæmt reglum sem KSÍ setti í byrjun sumars er hægt að hætta keppni þegar búið er að spila 2/3 hluta mótsins og ráðast þá úrslit á meðalfjölda stiga liða miðað við spilaða leiki.

Það meðaltal er Einherja og Hetti/Huginn hagstæð því liðin myndu halda sér í þriðju deildinni. Sú staða gæti hins vegar breyst ef Vængir Júpíters næðu að vinna leikinn sem þeir eiga til góða. Leiknir Fáskrúðsfirði er í fallsæti í 1. deild karla óháð reiknireglum en gæti bjargað sér með að sækja stig og hagstæðum úrslitum mótherja í leikjunum sem eftir eru. Það sama er að segja um kvennaliðið.

Guðmundur segist skilja ólíka hagsmuni liða og vissulega hafi staðan í deildinni áhrif á afstöðu þeirra. Það sé þó ekki hún sem ráði mestu um óskir félaganna um að mótinu verði hætt heldur útbreiðsla Covid-19 veirunnar og sá aukakostnaður sem liðin standa frammi fyrir.

„Við getum klárað mótið með ungum leikmönnun en það er engin óskastaða. Við sjáum hins vegar ekki að það séu aðrir kostir í stöðunni en að hætta. Það vill enginn vera fótboltamaðurinn sem fer til Reykjavíkur, nær í smit þar og ber hana á sitt heimasvæði, þar sem lítið eða ekkert er um smit. Það á ekki bara við Austfjarðaliðin því lið af fleiri landssvæðum eru hrædd við að fara til Reykjavíkur.

Það eru fjölmörg dæmi frá í vor frá löndunum í kringum okkur um að efstu deildirnar væru kláraðar en keppni hætt í þeim neðri. Fótboltinn var stöðvaður í tvo mánuði í vor og nú virðist verri bylgja vera að ganga yfir. Að mínu viti væri fáránlegt að byrja aftur eftir 2-3 vikur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.