Einherji og Höttur/Huginn sleppa en Leiknir ekki

Karlalið Einherja og Hattar/Hugins sleppa við fall eftir að Knattspyrnusamband Íslands ákvað að hætta keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu á föstudag. Sömu sögu er ekki að segja af Leikni. Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis missir af möguleikanum á að fara upp um deild.

Úrslit Íslandsmótsins í ár ráðast af stigum að meðaltali í leik en flest lið áttu tvo leiki eftir, sum meira vegna frestaðra leikja út af Covid-19 faraldrinum.

Leiknir fellur úr 1. deild karla með 12 stig, líkt og Þróttur Reykjavík og Magni en sex mörkum verra í markahlutfall en Þróttur sem er það lið sem bjargar sér.

Magnamenn hafa gefið það út að þeir ætli sér að láta reyna á ákvörðun stjórnar KSÍ en ekki er að heyra að Leiknir ætli þá leið. „Við munum ekki sitja lengi með hendur í skauti og harma hlutskipti okkar. Nú förum við á fullt að undirbúa næsta tímabil og vonandi getum við fært góðar fréttir af þeim undirbúningi fljótlega,“ segir í frétt á heimasíðu liðsins.

Fá lið eru sennilega jafn fegin að mótinu sé lokið og Höttur/Huginn í þriðju deild karla. Liðið fékk 21 stig í 20 leikjum eða 1,05 stig að meðaltali í leik, endar í þriðja neðsta sæti og sleppur naumlega við fall. Í botnsætinu eru Vængir Júpiters með 19 stig úr 19 leikjum eða eitt stig að meðaltali í leik. Sigur í leiknum sem liðið átti inni hefði haldið því uppi á kostnað Hattar/Hugins.

Einherji endaði í fjórða neðsta sæti með 23 stig. „Það vildi enginn að tímabilið endaði svona en þetta var öruggasta leiðin,“ skrifar Englendingurinn Ash Civil, sem þjálfaði liðið í sumar, á Twitter

„Þetta var tímabil uppfullt af áskorunum en ég hef lært margt. Ég vann með frábærum leikmönnum og fyrir magnaða stuðningsmenn,“ skrifar Civil, sem var að þjálfara meistaraflokk í fyrsta sinn.

Fjarðabyggð endar í 8. sæti 2. deildar karla með 23 stig úr 20 leikjum. Öll liðin þar luku 20 leikjum.

Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis endar í þriðja sæti annarrar deildar kvenna með 29 stig úr 14 leikjum. Grindavík nær öðru sætinu og fer upp um deild með 33 stig úr 15 leikjum. Hefði mótið verið leikið til enda hefði Austfjarðaliðið getað náð toppliði HK, sem fékk 36 stig í 16 leikjum og hafði lokið keppni, en 22 mörkum munaði Kópavogsliðinu í vil í markahlutfalli.

Grindavík lék síðasta leik Íslandsmótsins í ár, vann Fram 4-0 þann 6. október. Sá leikur var liðinu gæfuríkir. Fyrir hann var liðið með 2,14 stig að meðaltali í leik en endar með 2,2 meðan HK er með 2,1875. Austfjarðaliðið endaði með 2,07 stig að meðaltali.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.