Dyrfjallahlaup breyttist í Breiðuvíkurhlaup

Vegna þoku var brugðið á það ráð að hlaupa frá Borgarfirði yfir í Breiðuvík frekar en upp í Dyrfjöll í árlegu Dyrfjallahlaupi sem fram fór um helgina. Skipuleggjandi segir það hafa komið á óvart hversu mikil ánægja var með varaleiðina. Þorsteinn Roy Jóhannsson og Elísabet Margeirsdóttir komu fyrst í mark eftir að hafa fylgst að nær alla leiðina.

„Við funduðum á fimmtudag. Þann dag rigndi mikið á Borgarfirði og við vissum að uppi í fjöllunum væri mikill snjór. Spáin fyrir laugardaginn var samt ekki slæm.

Við merktum leiðina upp í Dyrfjöll í þoku á föstudag og hún var mjög fín í kringum fjöllin. Á laugardagsmorgunn vöknuðum við í rigningu og þoku og aðstæður þóttu hvorki nógu öruggar fyrir sjálfboðaliða né hlaupara.

Það hefði ekki þurft mikið til þess að hlaupari tíndist í langan tíma ef hann færi út af leið og þess vegna fannst okkur öruggara að virkja plan B.“

Þannig lýsir Inga Fanney Sigurðardóttir, skipuleggjandi Dyrfjallahlaupsins, aðdraganda þess að farin var önnur leið en vanalega. Hún hafði sjálf skoðað Breiðuvíkurleiðina daginn fyrir hlaup og þá komist að hún væri um margt sambærileg Dyrfjallaleiðinni í lengd og hækkun, 24,2 km að lengd og 830 metra hækkun.

Ánægja með Breiðuvíkurleiðina

Þeirri breytingu var vel tekið af hlaupurunum sem voru ríflega 60 að þessu sinni. „Fólk var í fyrsta lagi mjög ánægt með að það væri hlaupið en ekki blásið af, í öðru lagi leiðina. Margir höfðu ekki komið áður í Breiðuvík og mjög ánægðir með hversu góð varaáætlunin var. Við erum því komin í aðeins erfiða aðstöðu, það vilja allir hlaupa Dyrfjallahlaup en núna vilja allir líka fara þessa leið.“

Hlaupið var ræst á brúnni yfir Þverá, innst í Borgarfirði og þaðan hlaupið eftir vegslóða upp á Víknaheiði þaðan sem var beygt niður í Breiðuvík, þaðan upp á Gagnheiði og síðan niður í Borgarfjörð í gegnum bæinn að Fjarðarborg þar sem endamarkið var. Hlaupið var eftir vegslóða alla leið, öryggisins vegna. Það þýddi líka að brautin var hraðari heldur en torfærurnar í hinu hefðbundna Dyrfjallahlaupi.

Fyrstur í mark í karlaflokki var Þorsteinn Roy Jóhannsson á tímanum 2:02;10 klst en Elísabet Margeirsdóttir varð fyrst kvenna, 28 sekúndum á eftir Þorsteini Roy. „Mér skilst á sjálfboðaliðunum að það hafi verið gaman að fylgjast með þeim því þau skiptust á forustunni. Við tókum millitíma uppi á Gagnheiði þar sem voru tíu sekúndur á milli þeirra.“

Ótrúlegur hópur sjálfboðaliða

Að breyta leið að morgni keppnisdags er ákvörðun sem kostar snör handtök því koma þarf drykkjarstöðum upp á öðrum stöðum og fleira. Inga Fanney segir það hafa gengið snurðulaust fyrir sig og þakkar það öflugum sjálfboðaliðum á Borgarfirði.

„Það þarf að taka stóra ákvörðun, hvort sem það er að falla frá aðalleiðinni eða fara af stað í hana. Að breyta um leið kostar meiri pressu að morgni keppnisdags en þetta var þriðja ár hlaupsins og maður vinnur hvað allt er orðið smurðara. Þessi ótrúlegi hópur sjálfboðaliða á Borgarfirði gerði breytingarnar mögulegar. Allir voru tilbúnir að vera með. Þessi hópur getur gert allt og er samstíga í aðgerðum sínum.“

Kátir hlauparar á ferð. Mynd: Álfgerði Malmquist Baldursdóttur


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.