Dásamlegt að taka á móti titlinum á heimavelli

Eyþór Melsteð Ingólfsson fór með sigur af hólmi í aflraunakeppninni Austfjarðatröllinu. Eyþór er uppalinn á Breiðdalsvík og tók á móti titlinum á heimavelli þar sem síðustu greinar keppninnar fóru fram. Þetta var fyrsti sigur hans í aflraunakeppni en Eyþór stefnir lengra.

„Ég hef unnið kraftlyftingamót en aldrei aflraunakeppni. Það var dásamlegt að taka á móti titlinum á heimavelli,“ segir Eyþór. Hann segir keppnina heilt yfir hafa gengið vel, þótt veðrið hafi verið leiðinlegt.

Eyþór vann keppnina í ár með yfirburðum, sigraði í sjö greinum af átta. Sú eina sem hann vann ekki var bóndagangan, sem Eyþór segir veikleika sem hann viti af og þurfi að vinna í.

Síðasta greinin voru steinatök á Breiðdalsvík sem er ein af uppáhaldsgreinum Eyþórs. „Ég hef alltaf haft gaman af pressugreinum og svo hafa náttúrusteinatök hentað mér vel. Það er steinasería á Breiðdalsvík sem keppt hefur verið með. Ég hef ekki æft mikið með hana en steinatökin hafa samt legið vel fyrir mér.“

Fann sig ekki í hreystikeppnum

Eyþór er 25 ára gamall og er á sínu fjórða ári í aflraunakeppnum. Hann byrjaði í Austfjarðatröllinu 2015. „Ég byrjaði í fitness og vaxtarækt um 17 ára aldurinn en fann mig ekki þar. Tröllið var á leið um firðina og ég var í ágætu formi þannig ég hringdi í Magnús Ver og spurði hvort ég mætti ekki keppa. Ég var óundirbúinn en lenti ekki í síðasta sæti og féll fyrir sportinu.

Ég hef alltaf haft gaman af þessum keppnum þegar þær fara um Austfirðinga og áður aðstoðaði ég við keppnina þegar hún fór hér um,“ segir Eyþór sem fyrir tveimur árum varð þriðji.

Keppendur í aflraunum keppa í fjórum til fimm mótum á hverju sumri. Undirbúningstímabilið hefst í júní og stendur fram í maí en þar leggja iðkendur áherslu á að styrkja sig. Þeir taka síðan léttari æfingar yfir tímabilið með áherslu á að viðhalda styrk sínum. Því er nú að ljúka og þá geta aflraunamennirnir slakað aðeins á.

Samkeppni um að vera með í Sterkasti maður heims

Íslendingar eiga sér mikla sögu í aflraunum. Jón Páll Sigmarsson varð fyrstur til að vinna keppnina Sterkasti maður heims árið 1984 og vann hana alls fjórum sinnum fram til 1990. Þá tók Austfirðingurinn Magnús Ver Magnússon við og vann fjóra titla frá 1991-1996. Íslendingur vann ekki á ný fyrr en Hafþór Júlíus Björnsson gerði það í fyrra en hann varð þriðji í keppninni í ár.

Eyþór kveðst vel geta séð fyrir sér að taka þátt í keppninni en samkeppnin er mikil. „Ég gæti séð það gerast á næstu 2-3 árum að ég tæki þátt í keppninni, en það er ekki bara ég sem styrkist.“

Keppnisferill aflraunamanna stendur oft í 12-15 ár, eftir þann tíma virðist líkaminn vera orðinn það slitinn að hann nær ekki fyrri styrk. Ekki skipti öllu máli hvenær menn byrji upp á hvenær þeir nái hátindinum en Eyþór kveðst vel geta séð fyrir sér að keppa fram yfir þrítugt.

Mikill áhugi var á aflraunakeppnum þegar Jón Páll og Magnús Ver voru upp á sitt besta en athyglin virðist hafa breyst. „Menningin í kringum aflraunirnar er góð og hópurinn sömuleiðis. Það mætti hins vegar vera sett meiri athygli á jaðaríþróttir yfir höfuð, ekki bara okkar,“ segir Eyþór.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.