Orkumálinn 2024

Bullandi sjóveikir en sigruðu samt

Lið Hattar/Hugins í þriðju deild karla í knattspyrnu fór í langa og stranga ferð til Vestmannaeyja um helgina en hún var fyrirhafnarinnar virði þar sem liðið kom heim með þrjú stig. Leiknir og lið Einherja fengu sín fyrstu stig í deildakeppninni í sumar.

„Við fórum af stað á hádegi á föstudegi og keyrðum á Hvolsvöll þar sem við æfðum um kvöldið og ætluðum að sigla frá Landeyjahöfn morguninn eftir. Þegar við vöknuðum var ljóst að ekki væri fært þaðan til Eyja og því þurftum við taka Herjólf úr Þorlákshöfn.

Við drifum okkur í bátinn en það var vont í sjóinn þannig helmingur liðsins var annað hvort mjög slappur eða ælandi alla leiðina,“ segir Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins, um ferðina.

Leist ekki á liðið fyrir leik

„Þegar við komum í land í Eyjum þurfti að ákveða hvort við spiluðum leikinn strax eða færðum hann til sunnudags. Við vildum helst fresta því við vorum ekkert of ferskir eftir bátsferðina, sumir höfðu ælt nær stanslaust í þrjá tíma. Það hentaði hins vegar illa fyrir heimamenn í KFS þannig það var ákveðið að spila klukkan 18:00. Þá höfðu menn aðeins náð að borða og voru orðnir þokkalega sprækir.“

Ekki var sjóveiki að merkja á liðinu þegar leikurinn hófst og kom Halldór Bjarki Guðmundsson austanmönnum yfir strax á annarri mínútu. „Mér leist ekkert of vel á alla fyrir leikinn og var stöðugt að spyrja hvernig þeim liði og hvort þeir væru klárir. Ég sagði við þá inni í klefa að ég þyrfti að fá að vita hvort þeir væru ekki 100% heilir.

Við náðum að skora strax og mér fannst við betra liðið, vorum með boltann meðan þeir lágu til baka og vörðust. Það breyttist aðeins í seinni hálfleik og þeir jöfnuðu eftir víti sem mér fannst ódýrt. Síðan brýtur leikmaður þeirra af sér þegar boltinn er fjarri og fær sitt annað gula spjald. Eftir það lágum við á þeim og skoruðum loks á 80. mínútu,“ segir Brynjar en það var Pablo Carrascosa sem skoraði sigurmarkið.

„Það var svo eftir leik sem menn fóru að láta mig vita af sjóriðunni sem þeir vildu ekkert viðurkenna fyrr. Mér fannst hún ekkert sjást á mönnum, þeir hlupu og börðust.“

Tólf tíma heimferð

Ferðalaginu var þó ekki lokið. „Við vildum helst sigla strax eftir leik en Herjólfur var þá hættur að ganga. Við þurftum því að redda gistingu í skyndi úti í Vestmannaeyjum en það var snúið því allt var uppbókað út af kóramóti. Við enduðum loks á frekar sérstæðu farfuglaheimili, innblásnu af geimferðum.

Kvöldið var annars gott í Eyjum, við náðum að fara út að borða en formaðurinn ræsti okkur svo klukkan sex morguninn eftir því við þurftum að taka Herjólf til Þorlákshafnar. Sú ferð var skárri, ég held að flestir hafi náð að sofa. Við brunuðum svo heim og komum austur eftir tólf tíma ferð,“ segir Brynjar.

Eftir sigurinn er Höttur/Huginn einn á toppi þriðju deildarinnar með með tólf stig af tólf mögulegum eftir fjóra leiki. „Þetta er draumabyrjun sem gefur okkur sjálfstraust í næstu leiki. Liðið lítur vel út og spilar vel.“

Fyrstu stig liða Einherja og Leiknis

Hitt austfirska liðið í deildinni, Einherji, náði í sín fyrstu stig í sumar með 5-2 heimasigri á Elliða. Gestirnir komust í 0-2 en Bjartur Aðalbjörnsson minnkaði muninn fimm mínútum fyrir leikhlé. Alejandro Brace jafnaði á 54. mínútu og þremur mínútum síðar kom Bjartur heimaliðinu yfir. Alejandro jók forustuna á 70. mínútu áður en Björn Andri Ingólfsson skoraði síðasta markið á 78. mínútu.

Í annarri deild karla náði Leiknir Fáskrúðsfirði einnig í sín fyrstu stig en liðið vann Reyni Sandgerði 4-2 á heimavelli. Imanol Vergara kom heimamönnum í 2-0 með mörkum á 18. og 34. mínútu áður en Heiðar Snær Ragnarsson skoraði þriðja markið á 43. mínútu. Sandgerðingar skoruðu hins vegar tvö mörk í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Marteinn Már Sverrisson skoraði síðan fjórða mark Leiknis um miðjan seinni hálfleik.

Í hinum leiknum í deildinni tapaði Fjarðabyggð 0-2 fyrir KV í Reykjavík.

Kvennalið Einherja náði einnig í sín fyrstu stig í annarri deild kvenna með 2-2 jafntefli gegn Hamri á Vopnafirði. Líkt og karlaliðið lentu þær 0-2 undir en Taryn Siegele minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir jafnaði á 84. mínútu.

Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis fékk skell gegn úrvalsdeildarliði Þróttar Reykjavíkur í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna en liðin léku á Reyðarfirði. Gestirnir komust í 0-2 en Freyja Karín Þorvarðardóttir minnkaði muninn á 32. mínútu. Vendipunkturinn kom á 52. mínútu þegar Halldóra Birta Sigfúsdóttir fékk sitt annað gula spjald og einum fleiri bættu Þróttarstúlkur fimm mörkum við.

Liðsmenn Hattar/Hugins eiturhressir um borð í Herjólfi á leið til Vestmannaeyja. Mynd: Rekstrarfélag Hattar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.