Brynjar Árnason nýr þjálfari Hattar/Hugins

Brynjar Árnason hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hattar/Hugins í knattspyrnu til næstu tveggja ára. Brynjar hefur verið aðstoðarþjálfari og fyrirliði liðsins síðustu tvö ár en á þess utan að baki yfir 200 leiki í meistaraflokki.

„Mér finnst þetta spennandi verkefni og hlakka til að hefja störf þegar hefja má æfingar á ný. Þjálfun hefur heillað mig, hef áður þjálfað yngri flokka og verið aðstoðarþjálfari síðustu tvö ár. Þess vegna bauð ég fram krafta mína nú,“ segir Brynjar.

„Frá því ég tók við sem formaður í þessari stjórn hefur það verið í huga mér að Brynjar myndi taka við sem þjálfari. Hann er mikil fyrirmynd og Hattar/Huginsmaður. Ég reiknaði ekki með að það yrði svona fljótt en hann var fyrsta og eina nafnið sem rætt var innan þeirra stjórna sem koma að félaginu,“ segir Guðmundur Björnsson Hafþórsson.

Einn leikjahæsti Hattarmaðurinn

Brynjar, sem er fæddur árið 1990, spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Hött árið 2007. Hann hefur síðan leikið yfir 230 meistaraflokksleiki, langflesta fyrir Hött og sameinað lið Hattar/Hugins síðustu tvö ár eða 208 talsins sem gerir hann að einum leikjahæsta leikmanni Hattar fyrr og síðar. Hann lék líka með Egilsstaðaliðinu Spyrni eitt sumar og Huginn hluta úr tveimur sumrum.

Hann hyggst ekki leggja skóna á hilluna þótt þjálfunin hafi framvegis forgang. „Við höfum rætt um að halda því opnu að ég spili en þjálfunin gengur fyrir. Ég mun æfa í vetur og halda mér í formi þannig ég geti spilað ef á þarf að halda.“

Hann segist ekki vera byrjaður að setja nein markmið fyrir næsta sumar. „Það er enn langt og ekki tímabært að ræða það. Leikmannahópurinn þarf fyrst að taka á sig mynd. Ég vil reyna að spila skemmtilegan fótbolta og það þarf að ná betri árangri en við höfum gert síðustu ár.“

Frábær fyrirmynd fyrir leikmenn

„Við erum ánægðir með að geta kynnt Brynjar til sögunnar í dag. Það hefur verið mikið spurt út í væntanlegan þjálfara, meðal annars af leikmönnum. Brynjar er mikil fyrirmynd því hann hefur lagt mikið á sig, innan vallar sem utan.

Þótt við auglýstum ekki stöðuna bárust okkur álitlar umsóknir en við töldum Brynjar eina rétta kostinn. Brynjar er með sannkallað Hattar/Huginshjarta og við komumst að góðu samkomulagi,“ segir Guðmundur.

Brynjar tekur við af Viðari Jónssyni sem stýrt hefur liðinu síðustu tvö ár. Til stendur að ráða aðstoðarþjálfara með Brynjar þegar líður að næstu leiktíð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.