„Breytir miklu þegar þú færð svona fréttir“

Stöðfirðingurinn Heimir Þorsteinsson hefur leikið stóran þátt í sögu Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar þar sem hann hefur tvisvar verið aðalþjálfari liðsins. Starfið hefur hins vegar snúist um meira en fótbolta en Heimir þurfti meðal annars að fylgja einum leikmanni grafar og bregðast við þegar annar greindist með illkynja krabbamein.

„Þú átt að njóta þess að spila fótbolta en hann hverfur algjörlega þegar þú ert kominn í svona málefni,“ segir Heimir í samtali við hlaðvarpsþáttinn Miðjuna sem haldið er úti á vegum Fótbolta.net.

Það var í apríl 2011 sem Daniel Sakaluk, einn leikmanna Fjarðabyggðar, fórst í bílslysi á Möðrudalsöræfum, aðeins 18 ára að aldri. Heimir studdi bæði við aðra leikmenn liðsins sem tókust á við að missa vin sem og foreldra Daniels, en þau eru pólsk og höfðu ekki búið lengi í Neskaupstað.

Þannig kom það í hlutverk Heimis að bera Daniel til grafar. „Þegar þú færð slíkt símtal þá segistu ekki ætla að hugsa máli, þú verður bara að manna þig upp í þetta. Þetta var lítið duftker. Þetta voru þung skref en eftir á að hyggja nauðsynleg.“

Sumarið fór í að hugga

Fráfall Daniels hafði mikil áhrif á Fjarðabyggðarliðið. „Þarna var mánuður í mót og þetta í raun jarðaði tímabilið. Það hefði verið óeðlilegt ef þetta hefði ekki haft áhrif á okkur. Fótboltalið er bara hópur sem er mikið saman og við vorum með stráka sem náðu vel saman.

Eftir útförina þurfti að núllstilla allt og byrja aftur að æfa fótbolta. Strákarnir fóru í gegnum erfiðan tíma en stóðu sig vel. Við lentum í sjöunda sæti fyrir rest. Sumarið fór mikið í þetta, að díla við 17-19 ára stráka sem misst höfðu vin sinn. Það voru margir einn á einn fundir þetta sumar þar sem verið var að hugga.

Þegar illa gengur á vellinum er stundum bent á eitthvað annað en það sem er í ólagi. Strákarnir mega þó eiga það að þeir voru ekki að vorkenna sér.“

Fráfall Daniels er ekki eina áfallið sem Heimir hefur þurft að takast á við á þjálfaraferlinum. Sumarið áður greindist einn leikmanna Fjarðabyggðar, Rafn Heiðdal, með illkynja krabbamein. Rafn hafði komið til liðsins í byrjun árs 2010 en var sífellt að glíma við meiðsli. Læknisskoðun að undirlagi sjúkraþjálfarans leiddi undirrótina í ljós. „Það breytir miklu fyrir félagið þegar þú færð svona fréttir. Þetta var áfall fyrir strákana og rosalegt áfall fyrir hann,“ segir Heimir.

Þorvaldur kom með atvinnumannahugsun

Heimir þjálfaði Fjarðabyggð fyrst sumarið 2004, þá í samstarfi við Elvar Jónsson og undir þeirra stjórn fór liðið upp um deild. Í viðtalinu rifjar Heimir upp að fyrir sumarið hafi liðið misst marga leikmenn og sú stefna verið tekin að byggja liðið upp á þremur erlendum leikmönnum sem studdir yrðu ungum heimamönnum. Það hafi reynst gæfurík ákvörðun sem um leið endurspeglar sýns Heimis sem þjálfara.

„Liðið verður eins sterkt og mannskapurinn gefur. Ef við eigum ekki markmann þá kaupum við markmann, en ef við eigum hann þá stillum við honum upp. Ef 16 ára strákur er nógu góður þá getur hann spilað.“

Þegar Elvar og Heimir hættu sem aðalþjálfarar tók Þorvaldur Örlygsson við. Undir hans stjórn var liðið í baráttu um að fara upp í úrvalsdeild. „Hann fór með liðið á næsta skref, hann kom með atvinnumannahugsun inn í liðið og hafði aðgang að leikmönnum.“

Hefði viljað hætta fyrir 2012

Heimir tók svo aftur við sem aðalþjálfari í lok sumars 2008. Liðinu hafið gengið illa og var þá í fallhættu en sigur á Selfossi í lokaleik bjargaði liðinu frá falli. Heimir hafði ekki tilskilin þjálfararéttindi til að vera aðalþjálfari og úr varð að hann og Páll Guðlaugsson þjálfuðu liðið saman 2009. Aftur var það í toppbaráttu fyrstu deildar. „Við keyrðum á kjarna sem eftir var frá tíma Þorvaldar og ungum strákum.“

Þá tóku við erfiðari tímar. Meiðsli og áföll urðu til þess að liðið féll úr fyrstu deildinni 2010. Árið 2012 féll það svo úr annarri deildinni líka. „Það tímabil átti ég ekki að taka. Ég var ekki með fókus í þetta ævintýri og gerði það illa. Ég fann það fyrir tímabilið og fljótlega eftir að það byrjaði sá ég að þetta var ekki rétt ákvörðun.“

Heimir þjálfaði liðið út tímabilið en hann íhugaði alvarlega að hætta. „Ég hætti í tvo tíma eftir leik í Mosfellsbæ. Við vorum komnir 0-2 yfir en töpuðum. Ég held við höfum tapað 3-4 leikjum þetta sumar á mörkum eftir 90. mínútu. Það gekk ekkert upp þarna.“

Heimir segist ekki sjá fyrir sér að þjálfa annað austfirskt lið og hefur sterkar skoðanir á framtíð austfirskrar knattspyrnu. Hann vill sameina lið og byggja þau upp með leikmönnum úr heimabyggð. „Ég vildi sameina Leikni og Fjarðabyggð fyrir 10-11 árum. Þá var dauðafæri til þess en það hefur ekki verið áhugi frá Fáskrúðsfirðingum. Ég skil líka hugsun þeirra að vilja vera með eigið lið. Ég sem þjálfari hefði aldrei sleppt af því tökunum að vera með heimamenn í liðinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.