Borja: Leikurinn vannst á uppgjöfunum

Borja Gonzalez, þjálfari Þróttar, var skiljanlega afar ánægður eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna með 3-0 sigri á Aftureldingu í gær. Hann segir uppgjafir Þróttarliðsins hafa gert út af við Mosfellsbæjarliðið.

„Uppgjafirnar í kvöld voru frábærar. Við klúðrum tólf í öðrum leiknum á miðvikudag, það gerum við vanalega ekki. Uppgjafirnar og varnarleikurinn eru helstu styrkleikar þessa liðs.

Við ræddum það líka að Afturelding spilar lítið upp á miðjuna, þær leita yfir á díóinn og ef við lokum á hann þá hafa þær engin úrræði í sókninni. Við lögðum upp með þetta fyrir leikinn og fylgdum því eftir,“ sagði Borja að leik loknum.

Þróttur náði strax í byrjun fyrstu hrinu miklu forskoti og eftir það virtist björninn unninn. „Já, þessi leikur varð mun auðveldari en ég átti von á. Ég hélt að Aftureldingarliðið yrði baráttuglaðara. Við skoruðum sjö stig í röð snemma leiks og eftir það var leikurinn búinn.“

Árangur Þróttar í vetur er magnaður, liðið vann alla titlana sem í boði voru og tapaði aðeins einum leik. „Ég finn fyrir létti núna, það er búið að vera mikið stress á okkur í úrslitakeppninni. Við töpuðum bara einum leik allt tímabilið og við óttuðumst alltaf að við gætum tapað öðrum. Ung lið, eins og þetta, kikna oft undan álaginu og gefa eftir en það gerðist ekki.“

Borja hefur þjálfað kvennaliðið í þrjú ár og sambýliskona hans, Ana Vidal, karlaliðið. Þau leika síðan með sínum liðum og stefna á að vera áfram.

„Við verðum örugglega eitt ár í viðbót. Við erum mjög ánægð með hópinn, flestar stelpurnar verða áfram og við viljum fylgja þeim eftir í gegnum framhaldsskólann.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar