Orkumálinn 2024

Bogfimi: Haraldur Íslandsmeistari á ný

Haraldur Gústafsson, úr SkAust, fór heim með tvo titla af Íslandsmótinu í sveigboga innanhúss sem haldið var um síðustu helgi.

Haraldur sigraði í karlaflokki sem og keppni óháð kyni. Í úrslitum í karlaflokki hafði hann betur gegn Izaar Arnari Þorsteinssyni frá Akureyri 6-0.

Í úrslitum óháð kyni keppi Haraldur við Marín Anítu Hilmarsdóttur. Viðureign þeirra var mjög jöfn og jafnt, 4-4, þegar ein lota var eftir. Lotuna vann Haraldur með tveimur stigum, 29-27 og úrslitin þar með 6-4.

Haraldur endurheimti þar með Íslandsmeistaratitil karla, sem hann hafði unnið 2021 en hann tapaði í úrslitum í fyrra. Þá vann Haraldur Íslandsmeistaratitilinn utandyra 2020 og 21.

Einnig varð hann fyrsti Íslandsmeistari í keppni óháð kyni en það er nýr flokkur sem komið hefur verið á laggirnar til að stuðla að jafnri keppni karla, kvenna eða fólks sem skilgreinir sig utan þessara tveggja kynja.

Haraldur keppti einnig um titilinn í blandaðri keppni félagsliða, þar sem liðin samanstendur af einum karl og einni konu, ásamt Guðnýju Grétu Eyþórsdóttur frá Skaust. Þau töpuðu úrslitunum 5-1. Þau slógu hins vegar Íslandsmetið í blandarði félagsliðakeppni 50 ára og eldri í undankeppni mótsins þegar þau fengu 1028, sjö stigum meira en fyrra met.

Haraldur keppti einnig í alþjóðlegri keppni í sveigboga karla á mótinu og varð þar annar á milli tveggja Breta. Samkvæmt núgilandi reglum geta aðeins einstaklingar sem hafa búið hérlendis í að minnsta kosti ár og eru skráðir í aðildarfélög Bogfimisambandsins orðið Íslandsmeistarar.

Haraldur í keppni helgarinnar. Mynd: Bogfimisamband Íslands

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.