Blak: Vill skoða hámark á erlenda leikmenn

Aðallið Þróttar Neskaupstað luku bæði deildarkeppni vetrarins í blaki í neðsta sæti. Þjálfari segir veturinn hafa verið lærdómsríkan þótt hann hafi verið erfiður. Hún hvetur til þess að skoðað verði hvort rétt sé að takmarka fjölda erlendra leikmanna í hverju liði.

Bæði karla- og kvennalið Þróttar í efstu deildum í blaki luku keppni um helgina með að spila leiki við HK sem frestað var fyrr í vetur. Hvort lið spilaði tvo leiki og tapaði þeim 3-0. Áður var þó ljóst í hvað stefndi og því var minni pressa á leikmenn sem voru tæpir vegna meiðsla að fara í leikina.

Þannig voru Ana Vidal og Laura Ortega fjarrri kvennaliðinu. Malero spilaði sem frelsingi í karlaliðinu og Borja Gonzalez einbeitti sér að stjórnun liðanna af hliðalínunni. Á samt tíma opnuðust tækifæri fyrir yngri leikmenn.

Verðum að vera sterkari andlega

„Í sumum hrinum spiluðu stelpurnar ekki vel en inn á milli sýndu þær mjög gott blak. Við verðum að ná að lengja þá kafla upp í heila leiki. Það er okkar aðalverkefni ef við viljum ná lengra. Síðasta sætið endurspeglar ekki hæfileika liðsins en við verðum að vera sterkari andlega. Við stöndum í baráttu við það nú að halda einbeitingu og keppnisskapinu alla leikina.

Við unnum KA, sem síðan vann deildina, snemma í vetur. Það þýðir að við erum ekki svo langt í burtu en við verðum að verða stöðugri,“ segir Ana, sem þjálfar liðin ásamt Borja, um leiki kvennaliðsins um helgina.

Þróttur Neskaupstað er framtíð íslensks blaks

Kvennaliðið vann í fyrra alla þá titla sem í boði voru en á því urðu talsverðar breytingar í sumar. Karlaliðið varð einnig fyrir blóðtöku. „Við misstum reyndustu leikmenn kvennaliðsins og hinar yngri hafa verið í framför en það er stundum erfitt. Heiða Elísabet Gunnarsdóttir hefur einnig verið meidd þannig við erum að takast á við ýmis vandræði.

Við höfum mikla trú á þeim efnivið sem er í karlaliðinu. Félagið okkar er framtíð íslensks blaks, bæði í karla- og kvennaflokki. Við erum með nokkra mjög hæfileikaríka leikmenn sem bæta sig í hverri viku. Stundum er gott fyrir þá að fá að spreyta sig gegn sterku liði eins og HK. Karlaliðið átti marga fína spretti um helgina, sérstaklega á sunnudag. Það var góður blakleikur á íslenskan mælikvarða.

Karlaliðið getur ekki keppt við lið sem eru með svona marga erlenda leikmenn. Við höfum þrýst á Blaksamband Íslands um að setja hámark á þá. Annars eigum við á hættu að missa flesta íslensku leikmennina,“ segir Ana.

Slíkar takmarkanir eru ekki óþekktar, í evrópskri knattspyrnu eru ákvæði um að leikmenn hafi ákveðinn lágmarksfjölda leikmanna sem þau hafa alið upp sjálf í hópi. Þær hafa þó ekki alltaf haldið, Körfuknattleikssamband afnam reglur um hámarksfjölda leikmanna af evrópska efnahagssvæðinu eftir dóm þar um í fyrra.

Bikarkeppnin góður vettvangur fyrir óvæntar uppákomur

Blaktímabilið hjá Þrótti er ekki búið því liðið mætir til leiks í úrslitakeppninni í blaki sem leikin verður í Reykjavík um helgina. Karla- og kvennaliðið mæta bæði liðum KA sem unnu deildarkeppnirnar örugglega.

„Við ætlum að berjast og gera okkar besta. KA er mjög erfiður andstæðingur en bikarkeppnin er alltaf góður vettvangur fyrir óvænta atburði og við ætlum okkur að taka þátt í þeim.“

Liðin eiga líka enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina því lið í sætum 4. - 7. hjá konunum leika um laust sæti. Þróttur mætir þar Völsungi á Húsavík næsta þriðjudagskvöld. Karlaliðið leikur við Álftanes um laust sæti í úrslitakeppni karla og mætast liðin næsta miðvikudagskvöld á Álftanesi.

Samningur Önu og Borja við Þrótt rennur út eftir leiktíðina. „Við klárum leiktíðina, þar með talið barnamót í maí og síðan taka við landsliðsverkefni. Við sjáum hvað gerist eftir það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.